Dönsk glæpasamtök semja um vopnahlé

Samkomulagið kann að vera viðkvæmt því einhverjir eru enn óánægðir.
Samkomulagið kann að vera viðkvæmt því einhverjir eru enn óánægðir. mbl.is/Hjörtur

Á mánudagskvöld gerðu foringjar dönsku glæpasamtakana Loyal To Familia og Brohas samning um vopnahlé sín á milli. Þetta hefur danska ríkisútvarpið eftir heimildamönnum Samtökin hafa eldað grátt silfur saman í langan tíma og reglulega hefur komið til skotbardaga í átökum þeirra á milli á Norðurbrú í Kaupmannahöfn.

Í samningum mun vera kveðið á um að meðlimir samtakanna láti hvern annan vera. Þeir haldi sig frá yfirráðasvæði þeirra samtaka sem þeir tilheyra ekki og skjóti ekki hver á annan.

Reynt hefur verið að gera slíkt samkomulag margoft, án árangurs, en heimildamenn vilja meina að nú hafi það tekist. Ekki liggja þó fyrir upplýsingar um hvað foringjar samtakanna ræddu eða hvernig þeim tókst að ná þessu samkomulagi. Komið hefur til 38 skotbardaga á milli glæpasamtakana á götum Kaupmannahafnar. Þrír hafa látist og 25 hafa slasast.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur ekki viljað tjá sig um samkomulagið, en segist fylgjast náið með framvindu mála. „Við ætlum að svo tjá okkur um samkomulag á milli glæpasamtaka en ítrekum að við höldum áfram að reyna að tryggja öryggi borgarana og munum draga meðlimi samtakana sem hafa tekið þátt í drápum fyrir dómstóla,“ sagði í yfirlýsingu frá lögreglunni.

Samkomulagið kann að vera viðkvæmt 

Danska ríkisútvarpið hefur það eftir heimildamönnum að meðlimir úr báðum samtökunum hafi verið á fundi foringjanna á mánudag, sem var sá síðasti af mörgum. Þá hafi á fundinum einnig verið foreldrar meðlima í samtökunum sem tóku þátt í samningaviðræðunum.

Einn úr foreldrahópnum, Khlid Alsubeihi, sagði í útvarpsviðtali að samið hefði verið um vopnahlé í ótilgreindan tíma. Það fæli í sér að menn væru ekki að abbast upp á hvern annan og að ekki ætti að leitast eftir uppgjöri í ágreiningsmálum. Hann neitaði því að moskur hefðu komið við sögu í samningaviðræðunum.

Nöfn þeirra sem voru á fundinum hafa ekki verið gefin upp en samkvæmt heimildum danska ríkisútvarpsins voru báðir leiðtogarnir viðstaddir. Nokkrir hátt settir innan samtakanna eru þó í fangelsi og einhverjir eru ekki sáttir við samkomulagið. Það kann því að vera viðkvæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert