18 lögreglumenn farast í sjálfsvígsárás

Öryggissveitir sómalska hersins í átökum við uppreisnarliða Shabaab. 18 fórust …
Öryggissveitir sómalska hersins í átökum við uppreisnarliða Shabaab. 18 fórust í dag þegar sjálfsvígsmaður frá samtökunum sprengdi sig í loft upp. Mynd úr safni. AFP

Sjálfsvígsmaður myrti 18 lögreglumenn og særði 15 til viðbótar er hann sprengdi sig í loft upp í lögregluskóla í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í dag. Að sögn sómölsku lögreglunnar er talið að maðurinn tilheyri hópi Shabaab-uppreisnarmanna.

Vitni segja lögreglumennina hafa verið saman komna á torgi vegna daglegar marseringar sinnar þegar sprengjan sprakk.

Uppreisnarmenn hafa sl. áratug ítrekað látið til skara skríða í tilraun sinni til að varpa stjórn landsins, sem nýtur stuðnings alþjóðasamfélagsins, af stóli.

„18 lögreglumenn voru drepnir og 15 til viðbótar særðust þegar sjálfsvígsmaður sprengdi sig uppi inni á lóð lögregluskólans,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Muktar Hussein Afrah, settum lögreglustjóra. Er árásarmaðurinn sagður hafa verið klæddur í einkennisbúning lögreglu til að komast inn á lóðina.

„Sumir lögreglumannanna voru þegar búnir að stilla sér upp en aðrir voru á leiðinni í röðina, þegar maður í lögreglubúningi kom á svæðið og sprengdi sig í loft upp,“ sagði Hussein Ali sem var vitni að árásinni.

Shabaab, sem tengjast Al-Quaeda-hryðjuverkasamtökunum, hafa þegar lýst yfir ábyrgð á árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert