Bera áhorfendur ábyrgð á dauða ofurhuga?

Yongning var óhræddur við að klífa háar byggingar til að …
Yongning var óhræddur við að klífa háar byggingar til að ná myndum af sér. Ljósmynd/Weibo

Eftir að kínverski ofurhuginn og þakklifrarinn (rooftopper) Wu Yongning féll til bana niður af 62 hæða hárri byggingu, hafa vaknað upp spurningar hvort vefsíður sem borga fólki fyrir háskaleg myndbönd og áhorfendur þeirra beri einhverja ábyrgð á dauða hans. BBC greinir frá.

Yongning féll til bana þar sem hann var að sýna listir sínar með því að klifra utan á byggingunni án öryggisbúnaðar, en myndband náðist af því þegar hann barðist við að ná fótfestu utan á byggingunni án árangurs og missa takið.

Í kínverskum fréttamiðlum hefur komið fram hann hafi birt um 500 stutt myndbönd og beinar útsendingar í gegnum síðuna Huoshan. Þar átti hann yfir milljón aðdáendur og hafði fengið um 83 þúsund bandaríkjadali greidda fyrir myndböndin, eða tæpar 9 milljónir króna. Housan hafði komið myndböndum hans á framfæri síðan í júní á þessu ári.

Í frétt CCTV af málinu kom fram að slíkar síður gætu ekki hunsað þá staðreynd að viðskiptamódel þeirra gæti haft slæmar afleiðingar.

Forsvarsmenn Huoshan vefsíðunnar hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins þar sem þvertekið er fyrir að Yonging hafi verið hvattur áfram af þeirra undirlagi. Þeir kunni hins vegar að meta jaðaríþróttir og verk þeirra sem fara ótroðnar slóðir. Þeir hafi alltaf sýnt aðgæslu og hvorki hvatt til áhættu né gert samninga um slík atriði.

Þrátt fyrir að ofurhuginn hafi ekki verið neyddur til að klífa byggingar hafa engu að síður líka vaknað upp spurningar um það hvort áhorfendur beri einhverja ábyrgð á dauða hans. Þeir hafi í raun „hópfjármagnað“ dauða hans. Það sé staðreynd að eftirspurn eftir slíkum áhættumyndböndum er mikil og greiddar eru háar upphæðir fyrir þau.

Í Kína geta þeir sem útbúa slík myndbönd jafnvel fengið beinar greiðslur frá áhorfendum í formi stafrænna gjafa sem hægt er að breyta í reiðufé. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert