Mueller með tugþúsunda pósta frá teymi Trumps

Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI, er sagður hafa tugþúsundir tölvupósta …
Robert Mueller, sérstakur saksóknari FBI, er sagður hafa tugþúsundir tölvupósta frá kosningateymi Trumps undir höndum. AFP

Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandarísku alríkislögreglunnar FBI í rannsókn á meintum afskiptum Rússa af bandarísku forsetakosningunum, hefur undir höndum tugi þúsunda tölvupósta frá kosningateymi Donald Trumps að því er BBC  greinir frá.

Til þessa hefur FBI ákært fjóra einstaklinga  í tengslum við rannsókn sína. Lögfræðingur kosningateymis forsetans, Trump for America, fullyrðir að FBI hafi komist yfir póstana frá þriðja aðila með ólögmætum hætti, en talsmaður FBI segir viðeigandi rannsóknarferli hafa verið fylgt.

Mueller rannsakar bæði meint afskipti Rússa af kosningunum og meint tengsl kosningateymis Trumps við Rússa. Bæði Rússar og  Trump hafa hins vegar hafnað öllum slíkum ásökunum.

Trump for America nýttu húsakynni ríkisstofnunar, General Services Administration (GSA) fyrir skrifstofur sínar og fengu búnað og tölvuaðgengi í gegnum hana á þeim tíma sem kosningabaráttan stóð yfir. Eru tölvupóstarnir sagðir hafa verið fengnir frá GSA.

Kory Langhofer, lögfræðingur Trump for America, sendi Bandaríkjaþingi bréf í gær og kvartaði yfir því að GSA ætti ekki né hefði nein yfirráð yfir gögnunum. Fullyrti hann að stjórnarskrárvarin réttindi hefðu verið brotin með afhendingu þeirra. Bréf Langhofers er birt á vef Politico.

„Í þau skipti sem við höfum fengið afhenta tölvupósta í tengslum við glæparannsókn okkar þá höfum við annað hvort tryggt samþykki eiganda reikningsins eða tekið málið í gegnum viðeigandi glæparannsóknaferli,“ sagði Peter Carr talsmaður Muellers.

Aðrir hafa einnig komið til varnar notkun tölvupóstanna. Eric Swalwell, þingmaður Demókrataflokksins sagði á Twitter að fullyrðingarnar væru „enn ein tilraunin til að tortryggja Mueller eftir því sem rannsókn hans þrengdi að forsetanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert