Pútín þakkaði Trump fyrir aðstoð CIA

AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, þakkaði í dag Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir að bandaríska leyniþjónustan CIA skyldi láta Rússum í té gögn sem urðu til að hægt var að koma í veg fyrir mannskæð hryðjuverk í Pétursborg í gær. BBC greinir frá.

Trump og Pútín töluðu saman í síma í dag þar sem sá síðarnefndi þakkaði fyrir veitta aðstoð. Í frétt AFP-fréttaveitunnar segir að gögnin hafi komið lögregluyfirvöldum í Rússlandi að gagni við að uppræta hóp hryðjuverkamanna á vegum hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við ríki Íslams. Var hópurinn að leggja á ráðin um sjálfsmorðsárás sem átti að framkvæma hinn 16. desember, sem var í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert