Íslandsvinur kjörinn leiðtogi ANC

Cyril Ramaphosa.
Cyril Ramaphosa. AFP

Fyrrverandi aðalræðismaður Íslands í Jó­hann­es­ar­borg, Cyril Ramaphosa, var í dag kjörinn leiðtogi Afríska þjóðarráðsins, ANC. Hann þykir líklegur til að taka við embætti forseta Suður-Afríku af Jacob Zuma þegar kosið verður árið 2019.

Ramaphosa er núverandi varaforseti Suður-Afríku en hann tekur við leiðtogaembætti ANC af Zuma. Forsetinn má ekki sitja lengur í embætti en tvö kjörtímabil og ljóst að nýr forseti verður kjörinn í Suður-Afríku eftir tvö ár.

Hann hafði betur gegn Nkosazana Dlamini-Zuma, fyrrverandi eiginkonu Jacob Zuma. Ramaphosa hlaut 2.440 atkvæði en Dlamini-Zuma 2.261 atkvæði.

Núverandi forseti hafði lýst yfir stuðningi við fyrrverandi eiginkonu sína en með því vonaði hann að ýmis spillingarmál tengd honum yrðu ekki rannsökuð frekar.

Ramaphosa lét til að mynda hafa eftir sér í byrjun mánaðarins að hann tryði konu sem sagði að forsetinn hefði nauðgað henni fyrir áratug. 

„Já, ég trúi henni,“ sagði hann í út­varps­viðtali um kon­una sem ásak­ar Zuma um meinta nauðgun. Árið 2006 var Zuma sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað Fezekile Kuzwayo sem er dótt­ir fjöl­skyldu­vin­ar for­set­ans. Hann seg­ist hafa átt kyn­mök við kon­una með henn­ar samþykki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert