„Allir elskuðu hana“

Margir hafa minnst Zainab á götum Kasur-borgar.
Margir hafa minnst Zainab á götum Kasur-borgar. AFP

Zainab litla fannst látin á ruslahaug í síðustu viku. Þangað var henni hent eftir að hafa verið nauðgað og síðan drepin. Zainab er meðal níu stúlkna sem hefur verið nauðgað og síðan þær síðan drepnar í borginni Kasur í Pakistan síðustu mánuði. Lögreglan óttast að raðmorðingi gangi laus en DNA-sýni eru sögð benda til að um sama geranda hafi verið að ræða í öllum málunum. 

Zainab Ansari var sjö ára gömul. Lögreglan hefur látið gera teikningu af manni sem sást fyrir utan heimili hennar 4. janúar. Maðurinn er talinn vera á aldrinum 25-35 ára. 

Öllum níu fórnarlömbin sem um ræðir var nauðgað og átta þeirra voru drepin. Eina stúlkan sem komst lífs af er enn á sjúkrahúsi. Líkin fundust öll í borginni Kasur.

Morðið á Zainab litlu hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð í Pakistan og íbúar í Kasur segjast óttast um dætur sínar.

Zainab sást síðast á öryggismyndavélum ganga í nágrenni heimilis síns í fylgd ókunnugs manns. Foreldrar hennar voru þá á ferðalagi í Sádi-Arabíu og var stúlkan í umsjá frænda síns á meðan. Hann tilkynnti um hvarf hennar um sólarhring eftir að hún hvarf. 

Fjölmenn mótmæli

Krufning á líki hennar leiddi í ljós að hún hafði verið kyrkt og að henni hefði verið nauðgað. Þá var hún með áverka í andliti og talið að hún hafi verið pyntuð. 

„Hún var svo vel af guði gerð að allir elskuðu hana,“ sagði faðir hennar, Muhammad Amin Ansari, í samtali við CNN. Hann segist hafa óttast um hana í tvö ár eða frá því að morð á stúlkum hófust í borginni. Hann segir að yfirvöld hafi lítið aðhafst og ekki brugðist við yfirvofandi ógn. Hún hafi virst áhugalaus um að upplýsa um morðin.

Fjölmenn mótmæli hafa verið í borginni síðustu daga og var herinn kvaddur til eftir að hópur kastaði grjóti að stjórnarbyggingum. 

Lögreglan er nú að rannsaka DNA-sýni úr fimmtíu mönnum en hingað til hefur sú rannsókn ekki skilað árangri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert