Erdogan til fundar við páfann

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, mun funda með Frans páfa í Vatíkaninu í byrjun næsta mánaðar. Viðurkenning Bandaríkjaforseta á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels verður líklega aðalefni fundarins.

Leiðtogi Tyrklands og æðsti leiðtogi rómversk-kaþólsku kirkjunnar hafa báðir mótmælt ákvörðun Donalds Trumps frá því í desember, að viðurkenna Jersúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Fundurinn í Vatíkaninu fer fram 5. febrúar og verður það í fyrsta skipti sem Erdogan heimsækir smáríkið. Hann hefur verið í símasambandi við páfann hingað til þar sem þeir hafa rætt ástandið á landamærum Ísraels og Palestínu.

Frans páfi og Erdogan hafa hist einu sinni áður, þegar páfinn ferðaðist til Tyrklands í nóvember 2014. Forseti Tyrklands heimsótti Vatíkanið síðast árið 1959.

Einnig má búast við að Erdogan nýti fundinn til að reyna að greiða leið Tyrklands inn í Evrópusambandið. Erdogan heimsótti Frakkland í byrjun árs og sagði þá meðal annars að Tyrkir væru búnir að fá nóg af því að bíða eft­ir því að geta gengið í Evr­ópu­sam­bandið eft­ir að hafa beðið í hálfa öld eft­ir því.

Frétt mbl.is: Tyrkir orðnir leiðir á að bíða

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði stjórnmálaþróunina í Tyrklandi vera hindrun í vegi inngöngu landsins í sambandið og lagði til að gerður verði samstarfssamningur við Tyrki í staðinn.

Frans páfi tekur á móti Tyrklandsforseta í Vatíkaninu í byrjun …
Frans páfi tekur á móti Tyrklandsforseta í Vatíkaninu í byrjun febrúar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert