Flytja 300 rohingja á dag

Barn í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess.
Barn í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess. AFP

Stjórnvöld í Bangladess segja að búið sé að leggja línurnar um hvernig og hvenær hundruð þúsundum rohingja verður komið aftur til síns heima. Ronhingjar eru minnihlutahópur múslima sem sættu ofsóknum í heimalandinu Búrma og flúðu því í þúsundavís til nágrannalandsins Bangladess, aðallega síðustu mánuði.

Búrma hefur nú samþykkt, að því er fram kemur í frétt BBC, að taka við 1.500 rohingjum í hverri viku og er markmiðið að allir flóttamennirnir verði komnir aftur til Búrma innan tveggja ára. 

Meira en 650 þúsund rohingjar hafa flúið til Bangladess síðan í ágúst. Þeir höfðu haldið til í Rakhine-ríki í heimalandinu þar sem þeir sættu ofsóknum hermanna. Var stúlkum og konum nauðgað, fólk drepið og kveikt í húsum. 

Hjálparstofnanir og samtök hafa áhyggjur af því hvernig fólkið verður flutt aftur til Búrma en samkomulag náðist milli ríkjana um flutninginn fyrr í vetur.

Í frétt Reuters segir að ekki hafi verið ákveðið hvenær fólksflutningarnir munu hefjast. Þar kemur hins vegar fram að stjórnvöld í Búrma ætli að koma fólkinu fyrir í bráðabirgðaskýlum þar til langtímahúsnæði fyrir það verða byggð.

Fulltrúar stjórnvalda beggja landanna funda nú í höfuðborg Búrma um framkvæmd flutninganna. Í frétt BBC kemur fram að fulltrúar Bangladess hafi viljað senda um 15.000 rohingja til Búrma í hverri viku en lokaniðurstaðan hafi verið sú að 300 yrðu fluttir daglega eða 1.500 á viku.

Öryggið ekki tryggt

Amnesty International eru meðal þeirra mannréttindasamtaka sem hafa lýst yfir áhyggjur af fólksflutningunum. Talsmenn samtakanna efast um að öryggi rohingjanna verði tryggt í Búrma en þar í landi er mjög litið niður á rohingja. Þá segjast samtökin vonast til þess að fólk verði ekki neytt til að fara til baka. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst þeim hörmungum sem rohingjar hafa gengið í gegnum í heimalandi sínu sem þjóðernishreinsunum. Undir þá lýsingu hafa m.a. stjórnvöld í Bandaríkjunum og fleiri ríkjum tekið.

Stjórnvöld í Búrma hafa hins vegar alla tíð neitað því að herinn hafi beitt fólkið harðræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert