Trump segir að allir séu velkomnir

Donald Trump ræðir við fjölmiðla í dag.
Donald Trump ræðir við fjölmiðla í dag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fyrr í dag að hann vildi að innflytjendur, hvaðanæva úr heiminum, kæmu til Bandaríkjanna. Ummæli forsetans í dag stangast á við harðan málflutning hans um ríki Afríku, Haítí og El Salvador í síðustu viku.

„Við viljum að fólk komi frá öllum stöðum,“ sagði forsetinn í dag þar sem hann var spurður um innflytjendamál. Í síðustu viku lýsti Trump nokkr­um ríkj­um Afr­íku auk Haítí og El Sal­vador sem „skíta­hol­um“. 

Þing­menn úr báðum stjórn­mála­flokk­um, demó­krat­ar og re­públi­kan­ar, sátu fund for­set­ans í for­seta­skrif­stof­unni í Hvíta hús­inu á fimmtu­dag en þar var rætt um mögu­leg­ar um­bæt­ur á inn­flytj­enda­lög­gjöf Banda­ríkj­anna.

Trump hefur sjálfur sagt að hann hafi ekki kallað áðurnefnd ríki „skítaholur“ en viðurkennir þó að hafa tekið býsna hraustlega til máls. Trump gagnrýndi Dick Durbin, öldungardeildarþingmann demókrata, sem var á fundinum og sagði að Trump hefði talað um „skítaholur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert