Vöruðu Kushner við Murdoch

Wendi Deng Murdoch.
Wendi Deng Murdoch. AFP

Bandarískir gagnnjósnarar vöruðu tengdason forseta Bandaríkjanna, Jared Kushner, við því að kínversk/bandaríska kaupsýslukonan, Wendi Deng Murdoch, kynni að notfæra sér vinskap þeirra til hagsbóta fyrir kínversk yfirvöld.

Wall Street Journal greindi frá þessu í gær en viðvörunin var gefin út í byrjun árs í fyrra. Blaðið hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum að FBI hefði áhyggjur af því að fyrrverandi eiginkona Rupert Murdoch, sem á fjölmiðlasamsteypuna News Corp., væri á mála hjá kínverskum yfirvöldum við að þrýsta á byggingarframkvæmdir í Washington sem eru kostaðar af Kínverjum. 

Um er að ræða kínverskan garð sem á að reisa við National Arboretum, rétt við hliðina á bandaríska þinghúsinu og stutt frá Hvíta húsinu. Um 100 milljóna bandaríkjadala framkvæmd er að ræða.

Meðal þess sem FBI hefur áhyggjur af eru öryggismál en til stendur að reisa 21 metra háan turn í garðinum sem væri hægt að nýta til eftirlits.

Talsmaður Wendi Deng Murdoch segir að hún hafi ekki haft hugmynd um áhyggjur FBI né annarra leyniþjónustustofnana í tengslum við hana eða þá sem hún tengist. Talsmaðurinn segir að hún komi ekkert að gerð kínverska garðsins í höfuðborginni.

Wendi Deng Murdoch er fædd í Kína en hún gekk í hjónaband með Rupbert Murdoch árið 1999 en hann er fæddur í Ástralíu. Þau skildu árið 2013 en hún ber áfram nafn hans. Dagblaðið Wall Street Journal er í eigu fjölmiðlafyrirtækis Murdoch, News Corp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert