Bar fyrir sig bann frá Hvíta húsinu

Steve Bannon.
Steve Bannon. AFP

Fyrrverandi ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, Steve Bannon, neitaði í gær að svara spurningum þingnefndar sem rannsakar tengsl kosningabaráttu forsetans við Rússa. Bar Bannon fyrir sig að forsetaskrifstofan hefði lagt bann við því. 

Bannon sat fyrir svörum á bak við luktar dyr en þetta er í fyrsta skipti sem hann ber vitni við rannsókn nefndarinnar, House of Representatives Intelligence Committee, í tengslum við möguleg áhrif Rússa á niðurstöðu forsetakosninganna í Bandaríkjunum árið 2016. 

Ólíklegt er að Bannon sleppi við að bera vitni í málum sem tengjast þessu málefni og bæði New York Times og Washington Post greina frá því í gær að Bannon hafi verið birt stefna frá Robert Mueller, sérstökum saksóknara, sem rannsakar tengsl Rússa við forsetakosningarnar. 

Með því er Bannon sá fyrsti úr innsta hring Trumps sem Mueller stefnir formlega vegna rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert