Bretar velkomnir aftur í ESB

Jean-Claude Juncker.
Jean-Claude Juncker. AFP

Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, sagði í dag að hann myndi fagna viðleitni af hálfu Bretar til þess að ganga á ný í sambandið eftir að þeir hafa sagt skilið við það. Tilefnið voru ummæli Nigels Farage, fyrrverandi leiðtoga Breska sjálfstæðisflokksins, fyrir skömmu þess efnis að hugsanlega væri rétt að halda annað þjóðaratkvæði um veru Bretlands í Evrópusambandinu.

Farage sagðist hallast að þeirri skoðun þar sem hann væri sannfærður um að útganga úr Evrópusambandinu yrði samþykkt með enn meiri mun en þegar kosið var aumarið 2016. Það yrði þá hugsanlega til þess að þagga niður í þeim sem vildu að Bretland yrði áfram innan sambandsins en þeir hafa viljað annað þjóðaratkvæði. Bresk stjórnvöld hafa sagt að ekki komi til greina að kjósa aftur samkvæmt frétt AFP og Farage hefur síðan sagt að hann sé ekki hlynntur endurtekinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Juncker lét ummæli sín falla í Evrópuþinginu í dag í kjölfar þess að Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði fyrr í vikunni að armar sambandsins væru enn opnir ef Bretland myndi ákveða að hætta við að yfirgefa það. Sagði Juncker að útganga Breta væri hörmung og bæði Bretland og Evrópusambandið myndu tapa á henni. Minnti Juncker á að ríki gætu gengið aftur í sambandið samkvæmt Lissabon-sáttmála þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert