Kveiktu í skrifstofu mannréttindasamtaka

Oyub Titiyev formaður mannréttindasamtakanna Memorial var handtekinn fyrir vörslu fíkniefna. …
Oyub Titiyev formaður mannréttindasamtakanna Memorial var handtekinn fyrir vörslu fíkniefna. Talsmenn samtakanna segja ásakanirnar upplognar. Ljósmynd/hro.org

Tveir grímuklæddir menn kveiktu í skrifstofu rússnesku mannréttindasamtakanna Memorial í Ing­us­hetia í Norður-Kák­a­sus í Rússlandi. Tölvur og fjölmörg gögn eyðilögðust í árásinni sem var gerð viku eftir að stjórnandi hennar var handtekinn.   

Samtökin hafa harðlega gagnrýnt ofbeldi sem þau segja vera fyrir hendi í Rússlandi. Þau hafa einnig sakað Ramzan Kadyrov, forseta Tsjet­sjen­íu, fyrir að stunda mannrán og pyntingar. Hann hefur stýrt landinu með járnhnefa frá því hann komst til valda fyrir tíu árum. 

Á eftirlitsmyndavélum sjást tveir menn henda inn flösku á skrifstofuna. Talið er að í henni hafi verið eldfimt efni, að sögn samtakanna. Á myndum sem AFP-fréttastofan er með undir höndum sjást tveir menn með lambhúshettu reisa stiga við glugga á annarri hæð hússins þar sem skrifstofan er til húsa.   

Í síðustu viku handtóku yfirvöld í Tsjet­sjen­íu stjórnanda Memorial, Oyub Titiyev, fyrir vörslu fíkniefna. Aðgerðarsinnar segja að efnunum hafi verið komið fyrir á Titiyev og að hann sé hafður fyrir rangri sök. Þau telja nokkuð víst að þessar tvær árásir tengjast. 

Stjórnvöld í Kreml í Rússlandi þvertaka fyrir að þetta tvennt tengist.   

Samtökin segja árásina hryðjuverk og augljóst að með aðgerðunum sé verið að reyna að þagga niður í þeim. Árásir á mannréttindasamtök í Norður-Kákasus í Rússlandi eru algengar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert