Refsað fyrir að afklæðast og slátra lambi

Fólkið slátraði lambi við Auschwitz.
Fólkið slátraði lambi við Auschwitz. AFP

Skipuleggjendur mótmæla við Auschwitz voru í dag dæmdir í fangelsi. Fólkið fækkaði fötum og slátraði lambi við hliðið að útrýmingarbúðunum síðasta sumar.

„Aushwitz er táknrænn staður. Svona atburður ætti aldrei að gerast,“ sagði saksóknari. 

Sex þeirra ákærðu eru Pól­verj­ar en þá eru fjór­ir Hvít-Rúss­ar og einn Þjóðverji í hópn­um. Þau voru ákærð fyr­ir að van­helga minn­is­merki og mennirnir sem drápu lambið voru dæmdir í fangelsi fyrir dýraníð.

Hinir voru dæmdir til að sinna samfélagsþjónustu eða greiða sektir. Að sögn sak­sókn­ara kynnt­ist fólkið á net­inu og skipu­lagði viðburðinn í gegn­um sam­fé­lags­miðla. Ekk­ert bend­ir til þess að fólkið hafi póli­tísk­ar teng­ing­ar.

„Okkur var refsað fyrir listræna tjáningu okkar. Þetta er ekki sanngjarnt,“ sagði Mikita V. en hann var annar þeirra sem þarf að dúsa í fangelsi. 

Nas­ist­ar byggðu búðirn­ar í Auschwitz eft­ir að þeir her­námu Pól­land í seinni heims­styrj­öld­inni. Safnið í Auschwitz hef­ur lengi vel verið helsti minn­is­varðinn um þjóðarmorð nas­ista á sex millj­ón­um evr­ópskra gyðinga en ein millj­ón gyðinga var myrt í búðunum á ár­un­um 1940 til 1945. Þá létu 100.000 aðrir lífið í búðunum. Um 232.000 þeirra sem létu lífið í Auschwitz voru börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert