Rohingjarnir mun fleiri en talið var

Börn í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess.
Börn í flóttamannabúðum rohingja í Bangladess. AFP

Stjórnvöld í Bangladess segja að yfir milljón rohingja hafist við í flóttamannabúðum í landinu í nágrenni landamæranna að Búrma. Þetta er fleira flóttafólk en hingað til hefur verið talið.

Í undirbúningi er að senda rohingjana til heimalandsins Búrma á næstu tveimur árum. Í Búrma hafa þeir sætt ofsóknum hersins árum og áratugum saman; verið myrtir, þeim nauðgað og hús þeirra brennd.

Skráning flóttafólksins er liður í flutningsáætlununum. Þær eru umdeildar og hafa mannúðarsamtök varað við því að rohingjar gætu sætt áframhaldandi ofsóknum þar sem fordómar gagnvart þeim eru útbreiddir í Búrma. Flestir rohingjanna segjast ekki vilja snúa aftur. Amnesty International vonast til þess að þeir verði ekki þvingaðir til flutnings. 

Stjórnvöld í Bangladess segjast vonast til þess að fólksflutningarnir geti hafist í næstu viku. Þeir gera ráð fyrir að senda um 300 rohingja til Búrma á hverjum degi eða um 1.500 á viku.

„Við höfum nú þegar skráð 1.004.742 rohingja,“ segir Saidur Rahman, hershöfðingi í bangladesska hernum sem fer fyrir skráningunni. Enn á að hans sögn eftir að skrá nokkur þúsund manns. 

Þessar tölur eru hærri en þær sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út en sú stofnun hefur sagt að rohingjarnir í Bangladess séu um 962 þúsund talsins. Flestir hafa flúið síðustu mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert