„Þú notaðir líkama minn í sex ár“

„Þú notaðir líkama minn í sex ár fyrir eigin kynferðislegu fullnægju,“ sagði Kyle Stephens, sem var barnfóstra hjá fjölskyldu Larry Nassar, fyrr­ver­andi lækn­is banda­ríska fim­leika­landsliðsins, við réttarhöldin yfir Nassar í gær. „Þetta er ófyrirgefanlegt,“ bætti Stephens við en hún er ein af rúmlega 100 fórnarlömbum hans.

„Litlar stúlkur verða ekki litlar alla tíð. Þær verða að sterkum konum sem snúa aftur og eyðileggja veröld þína,“ bætti Stephens við. 

Fórnarlömb hans lýstu við vitnaleiðslur hvernig hann beitti þær hrottalegu kynferðislegu ofbeldi árum saman og hvaða áhrif þetta hefur haft á líf þeirra. Nassar, sem er 54 ára gamall, hefur játað sök um kynferðislegt ofbeldi í tíu málum í tveimur sýslum í Michigan og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. 

Þekktustu fórnarlömb hans eru gullverðlaunahafar á Ólympíuleikunum í fimleikum. Stjörnur eins og Simone Biles, Aly Raisman, McKayla Maroney og Gabby Douglas.

Við réttarhöldin í gær kom fram að yfir eitt hundrað konur og stúlkur hafa stigið fram og greint frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu Nassar. Er jafnvel búist við því að fórnarlömbin séu allt að 160 talsins. Brotin voru framin gegn þeim þegar þær voru á barnsaldri.

Iðrastu?

Fyrrverandi fimleikakonan Alexis Moore sagði við réttarhöldin að Nassar hafi notfært sér æsku hennar og níðst á trausti hennar í hans garð en Nassar beitti hana kynferðislegu ofbeldi í fleiri hundruð skipti.

Iðrast þú gjörða þinna og hvernig þú hefur breytt lífi fólks til framtíðar? spurði Moore lækninn í réttarsalnum í gær.

Nassar var klæddur í bláan fangabúning í réttarsalnum og leit vart upp þegar konurnar og stúlkurnar báru vitni. Hluti af vitnunum komu fram opinberlega undir nafni en aðrar óskuðu eftir því að bera vitni á bak við luktar dyr.

„Rændir mig sakleysinu“

Fimleikakonan fyrrverandi Jade Capua sagði að ofbeldið af hálfu Nassar hafi breytt lífi hennar fyrir lífstíð og hann hafi rænt hana sakleysinu þegar hún var allt of ung. „Ég er virkilega stolt af þér,“ sagði dómarinn, Rosemarie Aquilina, við Capua eftir að hún bar vitni.

„Ör þitt hefur breyst í öfluga rödd,“ sagði Aquilina ogt bætti við: „Takk fyrir hugrekki sem þú sýnir.“

Ein af þeim konum sem bar vitni, Olivia Cowan, lýsti því hvernig hún glímur enn við áfallastreituröskun eftir kynferðislegt ofbeldi af hálfu læknisins og að hún þori ekki að leyfa sínum eigin dætrum að fara í barnaafmæli eða gista annars staðar af ótta við þeirra velferð.

„Ef þú getur ekki treyst heimsþekktum lækni hverjum getur þú þá treyst?“ spurði Cowan grátandi við réttarhöldin.

Framdi sjálfsvíg eftir ofbeldið af hálfu Nassar

Stephens segist telja að ein af ástæðunum fyrir því að faðir hennar framdi sjálfsvíg árið 2016 hafi verið að hann hafi alltaf varið Nassar í gegnum tíðina en læknirinn var fjölskylduvinur. „Þú sannfærðir foreldra mína um að ég væri lygari,“ sagði Stephens.

Ein þeirra sem bar vitni í gær er móðir fyrrverandi fimleikastúlkunnar Chelsea Markham, Donna Markham, en Nassar beitti stúlkuna ofbeldi frá því hún var tíu ára gömul.

Markham lýsti því grátandi hvernig dóttir hennar hafi hætt í fimleikum þegar hún var þrettán ára gömul. Hvernig hún glímdi við þunglyndi og endaði með því að fremja sjálfsvíg árið 2009.

Nassar hefur þegar verið dæmdur í 60 ára fangelsi fyrir barnaníð en á nú yfir höfði sér lífstíðardóm. Í fyrradag steig Biles fram og greindi frá því að hún væri ein þeirra fjölmörgu fimleikastúlkna sem hefði verið beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu Nassar.

Mál Nassar varð til þess að Steve Penny, sem stýrði Fimleikasambandi Bandaríkjanna, neyddist til þess að segja af sér í fyrra en hann er sakaður um að hafa ekki greint yfirvöldum frá ásökunum um kynferðislegt ofbeldi af hálfu Nassar.

Settar hafa verið nýjar reglur hjá Fimleikasambandinu vegna málsins varðandi öryggi iðkenda í þeirri von að með því sé hægt að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert