Börnin fengu eina máltíð á dag

AFP

Turpin hjónin, sem ákærð eru fyrir að hafa haldið vannærðum börnum sínum fangelsuðum á heimili fjölskyldunnar í Kaliforníu, verða færð fyrir dómara í dag að því er BBC greinir frá.

Hjón­in Dav­id og Louise Turp­in voru hand­tek­in á sunnu­dag, grunuð um að hafa pyntað og haldið föngn­um þrett­án börn­um sínum á aldr­in­um tveggja til 29 ára. Það var 17 ára dóttir þeirra sem tilkynnti um málið er henni tókst að flýja út um glugga á heim­il­inu og hringja í lög­reglu. 

Ákæran, sem hljóðar upp á pyntingar og gáleysi í garð barnanna, verður kynnt Turpin-hjónunum formlega í dag og þau spurð hvort að þau fallist á ákæruna.

Börnin 13, sem öll eru líffræðileg börn hjónanna, hafa dvalið á sjúkrahúsi frá því að þeim var bjargað.  Þau voru verulega vannærð og illa á sig komin er þau fundust og sum hver hlekkjuð við rúm sitt. Ekkert bendir hins vegar til þess að þau hafi verið misnotuð kynferðislega, né bendir neitt til þess að geðræn vandamál eigi hlut að máli.

Fannst þau vera strangir foreldrar

Tæknideild lögreglu hefur unnið að rannsókn á heimilinu undanfarna daga og eins er verið að rannsaka hvort trú hjónanna eigi þátt í meðferð þeirra á börnunum.

NBC hefur eftir heimildamanni að börnin hafi ekki fengið nema eina máltíð daglega og að þau hafi fengið að fara í sturtu tvisvar á ári.

Ættingjar Turin-hjónanna hafa undanfarið greint bandarískum fjölmiðlum frá því sem þeir þekkja til fjölskyldunnar.

Elizabeth Flores, systir Louise, sagði fréttastofu ABC að þær hefðu ekki átt í „systrasambandi í ein 20 ár“.

„Það var kannski símtal við og við og stundum leið jafnvel ár á milli, þannig að þetta var áfall. Ég var eyðilögð. Við fengum aldrei að taka þátt í lífi þeirra,“ sagði Flores.

Sjálf bjó hún hjá Turpin-hjónunum um tíma er hún var í háskóla og á þeim tíma áttu þau fjögur börn. „Mér fannst þau vera strangir foreldrar, en ég sá engin merki um misþyrmingu,“ sagði hún. „Nú þegar ég er orðin fullorðin og horfi til baka, þá sé ég hluti sem ég áttaði mig ekki á þá.

Klórför á hurðum og neglt fyrir glugga

Flores segir mág sinn hafa gert ýmislegt sem henni fannst óþægilegt, en hún sagði engum frá af því að hún var „ung“ og „hrædd“.

„Þegar ég fór í sturtu, þá kom hann inn á baðherbergið á meðan ég var þar og horfði á mig. Það var eins konar brandari. Hann snerti mig aldrei eða neitt svoleiðis.“

Sögur hafa einnig borist af húsinu sem Turpin-fjölskyldan bjó í í Texas fyrir 18 árum. Fólkið sem flutti inn í húsið eftir að þau fóru þaðan hefur deilt myndum af húsinu með fjölmiðlum í Texas og sýna þær klórför á hurðum, glugga sem búið er að negla fyrir og útskitin teppi. Þá segja fyrrverandi nágrannar fjölskyldunnar að börnunum hafi ekki verið leyft að greina frá nöfnum sínum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert