Fire and Fury á leið í sjónvarp

Fire and Fury: Inside the Trump White House.
Fire and Fury: Inside the Trump White House. AFP

Samið hefur verið um að gera sjónvarpsþætti eftir bók Michael Wolff, Fire and Fury: Inside the Trump White House, samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla.

Bókin er að sögn Trump full af lygi en það hefur ekki dregið úr vinsældum hennar.

Samkvæmt Hollywood Reporter og Variety er það Endeavor Content sem keypti sýningarréttinn af Wolff en hann mun stýra framleiðslu þáttaraðarinnar. 

Í grein Boga Þórs Arasonar um bókina í Morgunblaðinu nýverið kemur fram að Wolff ræddi við marga af helstu ráðgjöfum forsetans, þeirra á meðal Steve Bannon, sem var aðalstjórnmálaráðgjafi hans, og einnig lægra setta embættismenn. Hann segist hafa fengið það á tilfinninguna þegar hann ræddi við þá að þeir teldu allir að hann væri ekki hæfur til að gegna embættinu. „Þeir sögðu allir að hann væri eins og barn. Og það sem þeir áttu við er að það þarf alltaf að fullnægja þörfum hans þegar í stað,“ sagði Wolff í viðtali við NBC-sjónvarpið. „Höfum í huga að þetta er maður sem les ekki. Hann hlustar ekki.“

Í bókinni er meðal annars haft eftir Steven Mnuchin fjármálaráðherra og Reince Priebus, fyrrverandi skrifstofustjóra Hvíta hússins, að Trump sé „fífl“. Gary Cohn, aðalefnahagsráðgjafi forsetans, sagði að hann væri „nautheimskur“. Haft er eftir H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, að Trump sé „bjálfi“, að því er fram kemur í umfjöllun fréttaveitunnar AFP um bókina. Sagt er að Trump sé reikull í hugsun, lítið þurfi til að draga athygli hans frá viðfangsefninu, hann hafi lítinn áhuga á málefnunum, hafi ekki grundvallaratriði á hreinu og geri sér ekki fulla grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem fylgi embættinu.

Í bókinni kemur meðal annars fram að Bannon talaði opinskátt í Hvíta húsinu um líkurnar á því að Trump héldi embættinu út kjörtímabilið. Hann sagði þriðjungslíkur á því að forsetinn héldi velli og þá aðeins vegna vanhæfni þingmanna og forystumanna demókrata. Hann taldi jafnmiklar líkur á því að Trump yrði vikið úr embætti vegna andlegrar vanhæfni á grundvelli 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna frá árinu 1967. Að lokum taldi hann þriðjungslíkur á því að höfðað yrði mál á hendur forsetanum til embættismissis, að sögn breska dagblaðsins The Guardian sem hefur birt útdrætti úr bókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert