Gefin saman af páfanum í háloftunum

Hjónavígsla í 11 þúsund metra hæð, framkvæmd af páfanum í …
Hjónavígsla í 11 þúsund metra hæð, framkvæmd af páfanum í Róm. AFP

Frans páfi gaf saman flugfreyju og flugþjón sem voru hluti af áhöfninni í páfadómsflugvélinni sem flaug frá Santiago, höfuðborg Chile, til borgarinnar Iquipue í norðri.

Páfinn er í opinberri heimsókn í Chile og ákvað að nýta tækifærið í flugferðinni og leggja sitt af mörkum svo að Carlos Ciuffardi og Paula Podest fengju hjónaband sitt viðurkennt af kaþólsku kirkjunni.

Carlos og Paula, sem eru 41 árs og 39 ára, eiga tvö börn. Þau giftu sig borgaralega árið 2010 en hjónaband þeirra var ekki viðurkennt innan kaþólsku kirkjunnar.

Frans páfi tók því málin í sínar hendur í 11 þúsund metra hæð. Athöfnin var stutt og hnitmiðuð og fór fram án vitundar þeirra fjölmiðla sem eru með páfanum í för. Hjúskaparvottorðið útbjó páfinn sjálfur og undirritaði.

Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu gafst parinu ekki kostur á sínum tíma að gifta sig í trúarlegri athöfn þar sem kirkjan sem hefði orðið fyrir valinu eyðilagðist í jarðskjálfta.

Þau létu því borgaralega athöfn nægja, en líklega má gera ráð fyrir því að hjónin séu í skýjunum yfir óvæntu hjónavígslunni sem átti sér stað í háloftunum.  

Frans páfi er í opinberri heimsókn í Chile. Hér er …
Frans páfi er í opinberri heimsókn í Chile. Hér er hann nýkominn til borgarinnar Iquique. Í fluginu til borgarinnar nýtti hann tímann vel og gaf saman tvö úr áhöfninni um borð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert