Kínversk mafía handtekin á Ítalíu

Ítalskir lögreglumenn gerðu húsleit í nokkrum borgum í tengslum við …
Ítalskir lögreglumenn gerðu húsleit í nokkrum borgum í tengslum við rannsóknina. Ljósmynd/Ítalska lögreglan

Ítalska lögreglan hefur handtekið 33 einstaklinga sem grunaðir eru um tilheyra kínversku mafíunni. BBC segir lögreglu á Ítalíu hafa framkvæmt húsleit í nokkrum borgum í morgun, en hópurinn er grunaður um að stýra flutningum á kínverskum afurðum um Evrópu, sem og afurðum framleiddum af Kínverjum á Ítalíu.

Aðgerðin fékk nafnið „kínverskur flutningabíll“ og byggir á rannsókn sem hófst árið 2011.

Hinir handteknu eru ákærðir fyrir að hafa tengsl við glæpasamtök og segir lögregla 21 mann til viðbótar enn vera til rannsóknar.

Hópurinn hóf starfsemi sína í borginni Prato í Toskana, en hann teygði síðan anga sína til Rómar, Flórens, Mílanó, Padúa og Písa að því er sagði í yfirlýsingu ítölsku lögreglunnar.

Þá er hópurinn einnig sagður hafa verið með starfsemi í Frakklandi og á Spáni og er talið að hann hafi m.a. tengst ólöglegri starfsemi á borð við vændi og fíkniefnasmygl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert