Myrkasti desember í rúmlega 80 ár

Desember á síðasta ári var myrkasti mánuður Belgíu frá árinu 1934. Aðeins mældust um 10 sólskinsstundir samanlagt allan mánuðinn samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar þar í landi.

Mörgum finnst myrkrið erfitt og geðlæknar segja það geta valdið þunglyndi.

„Ljós er mikilvægt mannfólkinu,“ segir geðlæknirinn Matthieu Hein. Hann segir að sólarljós hafi áhrif á efnaframleiðslu í heilanum sem auki orku fólks í dagsins önn. „Ef við fáum ekki næga birtu þá finnst okkur við hæg og þreytt, sem eru dæmigerð einkenni árstíðarbundins þunglyndis.“

Desember var einnig óvenju blautur í Belgíu og þar rigndi í 26 daga mánaðarins. Þá gerði þrumuveður í níu daga en meðaltalið í desember á þessum slóðum er þrír dagar. 

Íbúar í Brussel segjast hafa fundið áhrif veðursins á líðan sína. „Þegar maður er úti í þessu veðri og er kalt og það er blautt þá fer það ekki vel í skapið á manni,“ segir einn borgarbúi. „Mann langar helst ekki fram úr rúminu.“

Í janúar hefur svo snjóað svo ljóst er að íbúar Belgíu þurfa að bíða í einhvern tíma eftir sólskininu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert