Olíuflekkirnir frá Sanchi orðnir fjórir

Eldur logaði í íranska olíuflutningaskipinu Sanchi í rúma viku áður …
Eldur logaði í íranska olíuflutningaskipinu Sanchi í rúma viku áður en það sökk. AFP

Olíulekinn frá íranska olíuskipinu Sanchi, sem sökk úti fyrir Sjanghæ, hefur nú dreifst í fjóra stóra olíuflekki sem ná nú yfir um 100 ferkílómetra svæði að sögn kínverskra yfirvalda.

Sanchi var með um 136.000 tonn af léttri hráolíu þegar það lenti í árekstri við annað skip um 260 km fyrir utan Sjanghæ með þeim afleiðingum að það kviknaði í skipinu. Það logaði síðan í Sanchi í rúma viku áður en skipið sökk síðasta sunnudag.

Talið er að allir þeir 32 sem voru í áhöfn skipsins séu látnir.

Fyrri myndir frá gervihnöttum af olíulekanum sýndu bara tvo olíuflekki að sögn BBC.

Kínverska hafrannsóknarstofnunin sem fylgist með svæðinu segir flekkina hins vegar nú vera orðna fjóra. Þeir séu misstórir að stærð, allt frá 48 km2 niður í 5,5 km2 .

Talið er að hráolían um borð í skipinu, sem og eldsneytið sem notað var til að knýja það geti haft verulega alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir lífríki á svæðinu. Létta hráolían sem var um borð er ólík hefðbundinni hráolíu að því leyti að hún er eitruð, hefur litla þéttni og er mun eldfimari. Þá er hún gott sem litar- og lyktarlaus og erfitt að greina eitraða bletti hennar sem geta leynst undir yfirborðinu.

Kínverska samgönguráðuneytið greindi frá því í gær að það hefði fundið Sanchi, sem nú er á 115 metra dýpi og að til standi að senda niður könnunarför til að skoða svæðið og hvort hægt sé að stöðva olíulekann úr skipinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert