Stunginn fyrir leik á Spáni

Frá leik Atletico Madrid og Sevilla í gærkvöldi. Maður var …
Frá leik Atletico Madrid og Sevilla í gærkvöldi. Maður var stunginn fyrir leikinn. AFP

Karlmaður var handtekinn í morgun en hann er grunaður um að hafa stungið stuðningsmann spænska knattspyrnuliðsins Atletico Madrid. Fórnarlambið særðist alvarlega en er þó ekki í lífshættu.

Hinn handtekin er fertugur en hann er grunaður um morðtilraun. Lögreglan á Spáni segir að hann tengist fótboltabullum hjá Atletico Madrid.

Árásin átti sér stað í gærkvöldi í grennd við neðanjarðarlestarstöð fyrir leik Atletico og Sevilla í spænsku bikarkeppninni.

Svo virðist sem mönnunum hafi lent saman á bar og átök þeirra á milli enduðu með fyrrgreindum afleiðingum. Hinn stungni var fluttur á sjúkrahús en hann hlaut þrjú stungusár.

Fórnarlambið, sem er 22 ára gamall, gekkst undir aðgerð. Spænska lögreglan hefur ekki greint frá nafni árásarmannsins en spænskir fjölmiðlar greina frá því að hann hafi átt þátt í því að stuðningsmaður Real Sociedad lét lífið fyrir leik gegn Atletico fyrir 20 árum. Það mál var síðar fellt niður vegna skorts á sönnunargögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert