Fótboltatreyjur bannaðar í þinginu

François Ruffin í fótboltatreyjunni í þingsal.
François Ruffin í fótboltatreyjunni í þingsal. Facebook-síða François Ruffin

Franskir þingmenn þurfa að gæta að sér í framtíðinni þegar þeir mæta í þingsal því forseti þingsins mun leggja fram frumvarp til laga fljótlega þar sem reglur verða settar um klæðaburð í þinginu. Meðal annars verður bannað að mæta í fótboltatreyjum.

Fjallað er um frumvarpið í Le Parisien í dag en þar kemur fram að forseti þingsins telji tímabært að herða reglur varðandi klæðaburð þingmanna.

Árið 1981 lagði ríkisstjórn sósíalista nýjar reglur varðandi klæðaburð karla á þingi og gerði þeim skylt að vera í skyrtu og með bindi. Jafnframt var dyravörðum þingsins gert að vera með aukabindi á sér fyrir þá sem gleymdu bindinu heima.

En í júlí í fyrra var slakað á reglunum þar sem nýr þingmaður öfga vinstriflokksins France Insoumise, François Ruffin, neitaði að fara eftir reglunum líkt og aðrir þingmenn flokksins.

Ruffin gekk of langt að mati margra þegar hann fór úr peysunni í ræðupúlti og skartaði fótboltatreyju fótboltaliðsins sem hann styður þegar hann ræddi um skattlagningu á félagaskiptum knattspyrnumanna stóru félaganna.

Þetta vakti litla hrifningu og hefur Ruffin nú verið gert að greiða sekt sem nemur fjórðungi af mánaðarlaunum fyrir að hafa móðgað þingið. 

Forseti þingsins segir tímabært að koma aftur á reglu um að þingmenn klæðist skyrtum og beri bindi. Bann verður lagt við stuttermabolum með pólitískum og eða trúarlegum slagorðum á og eins einkennisbúningum eða klæðnaði almennt sem er með auglýsingum á, segir François de Rugy, forseti franska þingsins sem telur einnig að tjáning þingmanna eigi einvörðungu að vera munnleg. 

Frétt Le Parisien

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert