Rohingjar mótmæla flutningi til Búrma

Rohingjar bíða eftir matargjöf í flóttamannabúðum í Bangladess. Fjöldi þeirra …
Rohingjar bíða eftir matargjöf í flóttamannabúðum í Bangladess. Fjöldi þeirra er ósáttur við áætlanir um að flytja þá aftur til Búrma, en þaðan flúðu þeir grimmilegar ofsóknir. AFP

Hundruð rohingja mótmæltu í Bangladess í dag áætlunum yfirvalda í landinu um að senda þá aftur til Búrma (Mijanmar). Rohingjar eru minnihlutahópur múslima í Rakhine-héraði í Búrma, sem sættu ofsóknum í heimalandinu og hafa því flúið í þúsundavís til nágrannalandsins Bangladess, aðallega á seinni hluta síðasta árs.

Hrópaði fólkið slagorð og hélt uppi spjöldum þar sem það þess var krafist að það fengi ríkisborgararétt og að öryggi þeirra yrði tryggt áður en þeir yrðu sendir aftur til Rakhine héraðs.

Von er á Yanghee Lee, rannsakanda Sameinuðu þjóðanna á ástandi mannréttindamála í Búrma, í flóttamannabúðirnar í suðausturhluta Bangladess þar sem um milljón rohingjar búa nú.

Yfirvöld í Bangladess og Búrma gerðu samkomulag sín á milli síðasta haust um að um 750.000 rohingjar sem hafa komið til Bangladess frá Búrma frá því í október 2016 verði sendir til baka. Ferlið á að taka tvö ár, en til stendur að fyrstu rohingjarnir verði sendir til baka jafnvel strax í næstu viku.

Fjöldi rohingjanna, sem nú býr í fjölmennum og óheilsusamlegum flóttamannabúðunum, hefur hins vegar sagt ekki vilja snúa aftur til Rakhine en þaðan flúðu þeir grimmdarverk á borð við morð, nauðganir og íkveikjur.

Mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar hafa sagt að þeir rohingjar sem snúi aftur til Búrma verði að gera það af fúsum og frjálsum vilja. Þá hafa þau einnig lýst yfir áhyggjum af ástandinu í Búrma, enda hafi byggðarlög rohingja í mörgum tilfellum verði brennd til grunna.

Ríkisstjórn Búrma hefur hins vegar sagst vera að reisa tímabundnar búðir sem rohingjarnir geti hafst við í, en sú hugmynd hugnast ekki rohingjum sem óttast það sem bíður þeirra.

„Við viljum öruggt svæði í Rakhine áður en við snúum aftur,“ hefur AFP-fréttastofan eftir flóttamanninum og fyrrverandi kennaranum Mohibullah.

„Við viljum að það sé friðargæslulið í Rakhine. Við viljum grundvallar mannréttindi. Við viljum ekki vera flutt til baka án trygginga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert