„Þú ert ekkert“

Mckayla Maroney, Kyla Ross, Alexandra Raisman, Gabrielle Douglas and Jordyn …
Mckayla Maroney, Kyla Ross, Alexandra Raisman, Gabrielle Douglas and Jordyn Wieber fagna gullverðlaunum á Ólympíuleikunum 2012. Wieber, Rasiman, Douglas og Maroney hafa allar stigið fram og sagt að Larry Nassar hafi misnotað þær. AFP

Gullverðlaunahafi frá Ólympíuleikum horfðist í dag í augu við skömmustulegan Larry Nassar þegar réttarhöld yfir honum héldu áfram. Nassar er fyrrverandi læknir bandaríska fimleikalandsliðsins en hann hef­ur játað sök um kyn­ferðis­legt of­beldi í tíu mál­um í tveim­ur sýsl­um í Michigan og á yfir höfði sér lífstíðarfang­elsi. 

Jordyn Wieber er fjórða af fimm úr ólympíusveitinni sem vann til gullverðlauna árið 2012 til að saka Nassar um misnotkun. Áður höfðu liðsfélagar hennar, Aly Raisman, Gabby Douglas og McKayla Maroney, sagt að hinn 54 ára gamli Nassar hefði beitt þær kynferðislegu áreitni.

Nassar er sakaður um að hafa misnotað meira en hundrað konur.

„Ég hélt að undirbúningur og æfingar fyrir Ólympíuleikana yrði það erfiðasta sem ég gæti gert,“ sagði Wieber í dómsal.

Nassar hlustar á fórnarlömb sín segja frá.
Nassar hlustar á fórnarlömb sín segja frá. AFP

„En það erfiðasta sem ég hef gert er að vinna úr því að vera fórnarlamb Larry Nassar,“ bætti hún við. Wieber sagði frá því að Nassar hefði hafið misnotkunina gegn henni þegar hún var 14 ára.

Wieber greindi frá því að Nassar hefði oft verið eini karlmaðurinn sem fylgdist með liðinu í æfingabúðum og stundum kom hann til þeirra á hótelherbergin. „Fimleikasambandið ber ábyrgð,“ sagði Wieber.

„Núna þarft þú að hlusta á mig Larry,“ sagði Aly Raisman þegar hún sagði sína sögu. Hún sagðist vilja sína Nassar að hún væri ekki lengur fórnarlamb, heldur hefði hún lifað af.

„Larry, þú áttar þig á því núna að þessi hópur kvenna sem þú níddist á í langan tíma er gríðarlega máttugur og þú ert ekkert,“ bætti Raisman við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert