Tyrkir skjóta á þorp kúrda í Sýrlandi

Sýrlensk börn virða hér fyrir sér tjón á byggingum í …
Sýrlensk börn virða hér fyrir sér tjón á byggingum í Afrin eftir árásir tyrkneska hersins í morgun. AFP

Tyrkneski herinn hefur í morgun skotið sprengjukúlum á þorp kúrda í Afrin-héraðinu í norðvesturhluta Sýrlands, að sögn liðsmanna uppreisnarsveita YPG. Þá hafa tyrknesk stjórnvöld hótað því að árás sé í undirbúningi.

Skotin bárust frá tyrkneskum svæðum við landamærin og segir Guardian um 70 sprengikúlum hafa verið skotið á þorpin frá því á miðnætti. Tyrkir telja kúrda á Sýrlandi vera framlengingu á uppreisnarhópum kúrda í Tyrklandi, sem þeir telja til hryðjuverkamanna, og hafa þeir ítrekað hótað árásum á sýrlensku hópana.

Hótanirnar bárust eftir að Bandaríkin tilkynntu að þau ætluðu að aðstoða við þjálfun vopnaðra sveita sýrlenska lýðræðishersins, SDF, sem samanstendur að mestu af liðsmönnum úr YPG. Er þeim ætlað að verða hluti af öryggissveit við landamærin að Tyrklandi. Hafa tyrkneskar herveitir með skriðdreka komið saman við landamærin við Afrin-héraðs undanfarna daga.

Nurettin Canikli, varnarmálaráðherra Tyrklands, sagði í dag árás vera hafna.

„Aðgerðin hófst með skotum yfir landamæri,“ sagði Canikli við fréttamenn. „Öll net hryðjuverkamanna í norðurhluta Sýrlands verða þurrkuð út. Það kemur ekkert annað til greina.“

Rojhat Roj, talsmaður YPG í Afrin, sagði Reuters fréttastofunni að árásin sé sú þyngsta sem Tyrkir hafi staðið fyrir frá því að tyrknesk stjórnvöld hótuðu að grípa til hernaðaraðgerða gegn héraðinu.  Sagði Roj YPG munu svara öllum árásum af fullum krafti.

Mikil spenna er þegar í samskiptum stjórnvalda í Tyrklandi og Bandaríkjunum og eru hótanir um árás á Kúrda taldar auka á þá spennu enn frekar. Hefur bandaríska utanríkisráðuneytið hvatt á Tyrki að beina kröftum sínum að baráttunni gegn hryðjuverkasamtökum Ríkis íslams og að senda ekki hersveitir til Afrin.

„Við hvetjum ...  Tyrki til að grípa ekki til slíkra aðgerða,“ sagði Heather Nauert talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Guardian segir Tyrki hafa sent yfirmenn hersins til Moskvu í gær til að óska eftir heimild fyrir loftárás á svæði kúrda í Sýrlandi. Sýrlendingar hafa hins vegar hótað að skjóta niður allar tyrkneskar herþotur sem fljúga inn í lofthelgi landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert