Hunsar viðvaranir Bandaríkjanna

Tyrkir gerðu árás á yfirráðasvæði Kúrda í Sýrlandi fyrir tveimur …
Tyrkir gerðu árás á yfirráðasvæði Kúrda í Sýrlandi fyrir tveimur dögum og hafa haldið því áfram. AFP

Tyrkland hefur hafið árásir á landi með það að markmiði að koma kúrdískum uppreisnarsveitum úr norðurhluta Sýrlands. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, í dag, en í gær var greint frá aðgerðunum. Með þessu hunsar hann viðvaranir Bandaríkjamanna sem hafa varað við því að með aðgerðum sínum ýti Tyrkir enn frekar undir óstöðugleika á svæðinu.

Tyrkir hafa á síðustu dögum sent tugi hertrukka yfir landamærin. Þá hófu þeir stórskotaárás á þorp og búðir Kúrda á svæðinu sem tilheyra samtökunum Verndarsveitum þjóðarinnar (YPG). Voru fyrstu skotmörkin í héraðinu Afrin, en Erdogan sagði í sjónvarpsávarpi í dag að bærinn Manbij myndi verða næsta skotmark.

Tyrkir hafa sakað YPG um að vera dóttursamtök kúrdíska verkamannaflokksins (PKK), sem hefur árum saman átt í átökum við tyrknesk stjórnvöld í austurhluta Tyrklands.

YPG hefur verið einn af lykilstuðningsaðilum Bandaríkjanna, sem er ásamt Tyrklandi NATO aðildarþjóð, í stríðinu gegn hryðjuverkasamtökunum íslamska ríkinu.

Ólíklegt er að Tyrkir fari í allsherjar hernað nema með blessun Rússa. Bandaríkin hafa varað Tyrki við hernaði gegn YPG og telja þá grafa undan þeim stöðugleika sem hefur verið komið á á svæðum undir stjórn YPG. Eru aðgerðir Tyrkja taldar mikið högg fyrir Bandaríkin og bandamenn þeirra í aðgerðum þeirra í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert