11,3 milljónir í sárri neyð

AFP

Sameinuðu þjóðirnar segja að þrjá milljarða bandaríkjadala þurfi til að mæta neyð íbúa Jemen. 11,3 milljónir Jemena þurfa nauðsynlega á aðstoð að halda til að lifa af, segir í yfirlýsingu frá OCHA, Sam­ræm­ing­ar­skrif­stofu Sam­einuðu þjóðanna í mannúðar­mál­um.

Fénu, 2,96 milljörðum bandaríkjadala, verður varið til aðstoðar í þessu stríðshrjáða landi þar sem kólerufaraldur og hungursneyð geisa.

Í yfirlýsingu OCHA kemur fram að kynslóð barna sé að vaxa úr grasi í Jemen þar sem ekkert annað blasi við en þjáningar og skortur.

Tæplega tvær milljónir barna ganga ekki í skóla og 1,8 milljónir barna yngri en fimm ára eru alvarlega vannærð. Þar á meðal 400 þúsund börn sem eru í lífshættu vegna vannæringar og það eru tíu sinnum meiri líkur á að þau deyi ef þau fá ekki læknisaðstoð.

AFP

Yfir 9.200 hafa látist í Jemen frá árinu 2015 þegar hersveitir undir stjórn Sádi-Arabíu hófu umfangsmikinn hernað gegn Hútum ásamt fleiri arabalöndum þar sem súnnímúslimar eru við völd. Markmiðið með hernaðinum er meðal annars að senda klerkastjórn sjíamúslima í Íran skilaboð en stríðið í Jemen er liður í baráttu Sáda og Írana um áhrif í Mið-Austurlöndum.

Um 2.200 Jemenar hafa látist úr kóleru en mikill skortur er þar á hreinlæti og aðstæður til lækninga eru af skornum skammti. 

SÞ hafa reynt að koma þeim skilaboðum áleiðis til umheimsins að hvergi í heiminum sé ástandið jafnslæmt og í Jemen þar sem stríðandi fylkingar hafa komið í veg fyrir að hægt sé að veita íbúum þá aðstoð sem þeir þurfa á að halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert