Hersveitir Tyrkja ráðast inn í Sýrland

Sýrlenskur uppreisnarmaður íTal Malid, norðan Aleppo fylgist með reykmekki frá …
Sýrlenskur uppreisnarmaður íTal Malid, norðan Aleppo fylgist með reykmekki frá búðum Verndarsveita Kúrda. AFP

Tyrkneski herinn hefur ráðist inn í norðurhluta Sýrlands. Markmiðið er, að sögn Erdogans Tyrklandsforseta, að losna við hersveitir Kúrda af um 30 km löngum landsvæði á mörkum Sýrlands og Tyrklands. Hernaðurinn beinist gegn Verndarsveitum Kúrda (YPG) sem Tyrkir segja hryðjuverkasamtök.

Tyrkneskar hersveitir hafa þegar komist um 5 kílómetra inn á sýrlenskt landsvæði, að því er fram kemur hjá Anadolu, ríkismiðli Tyrkja. Talsmaður YPG, Norui Mahmoudi, segir þó að hópurinn hafi síðan náð að hrekja á brott tyrkneskar hersveitir og muni þær neyðast til að hörfa.

Talið er að um 25.000 hermenn Frelsishers Sýrlands taki þátt í átökunum við hlið tyrkneska hersins. Erdogan hefur heitið því að gera út af við hersveitir Kúrda í Sýrlandi, sem og Verkamannaflokk Kúrda (PKK) sem hann segir í slagtogi við YPG, en Verkamannaflokkur Kúrda er ólöglegur í Tyrklandi.

Mannfall er á báða bóga. Verndarsveitir Kúrda hafa sagt að fjórir tyrkneskir hermenn hið minnsta hafi látist í bardögum í dag og tíu sýrlenskir uppreisnarmenn hliðhollir Tyrkjum sömuleiðis. Kúrdarnir halda því einnig fram að átta almennir borgarar hafi farist í loftárás Tyrkja á kjúklingabýli í þorpinu Jalbara í dag. Stjórnvöld í Tyrklandi halda því hins vegar fram að hinir látnu hafi allir verið hermenn.

Hernaðaraðgerðir Tyrkja hafa mælst illa fyrir hjá bandalagsþjóðum þeirra í NATO, þar á meðal Bandaríkjamönnum og Frökkum, en Bandaríkjastjórn lítur á YPG sem mikilvægan bandamann í baráttunni gegn Íslamska ríkinu. Óttast er að árásir Tyrkja verði til þess að stríðið í Sýrlandi dragist enn frekar á langinn en í mars eru sjö ár liðin frá því mótmælin gegn forseta landsins hófust.

Fjöldi kom saman í nokkrum borgum í Tyrklandi til að mótmæla áformum forsetans, sem sigaði lögreglunni á mótmælendur. Hann hefur boðað að öll mótmæli verði tekin föstum tökum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert