„Djákni dauðans“ leiddur fyrir rétt

Maðurinn er sakaður um að hafa sprautað lofti í æðar …
Maðurinn er sakaður um að hafa sprautað lofti í æðar sjúklinga. Ljósmynd/Wikipedia

Kaþólskur prestur sem starfaði áður sem hjúkrunarfræðingur var leiddur fyrir rétt í Belgíu í dag grunaður um að hafa myrt að minnsta kosti tíu manns, þar á meðal móður sína, með því að sprauta lofti inn í æðar þeirra.

Ivo Poppe, 61 árs, hefur verið kallaður „djákni dauðans“ af fjölmiðlum í heimalandi sínu. Verið hann fundinn sekur kemst hann í hóp með verstu raðmorðingjum sögunnar í Belgíu.

Poppe var handtekinn árið 2014 eftir að yfirvöldum var greint frá því að hann hefði játað það við geðlækninn sinn að hafa „aðstoðað tugi manns við líknardauða“.

Hann játaði tvö brot að hluta til á meðan á rannsókn málsins stóð en dró játninguna síðar til baka. Allar götur síðan hefur hann neitað öllum ásökunum á hendur sér.

Poppe starfaði í 20 ár sem hjúkrunarfræðingur á læknamiðstöð í Menin, skammt frá frönsku landamærunum, og í 10 ár við að heimsækja sjúklinga sem prestur eftir að hann var vígður sem djákni.

Hann er formlega sakaður um að hafa drepið að minnsta kosti 10 manns, þar á meðal móður sína, þrjá aðra ættingja sína og tvo sjúklinga.

Yfirvöld óttast að fórnarlömb hans kunni að vera mun fleiri.

Grunur leikur á því að að hann hafi drepið að minnsta kosti 50 sjúklinga til viðbótar og er sá fjöldi meðal annars byggður á færslum sem fundust í dagbók hans.

Síðasta fórnarlambið sem hann er ákærður fyrir að hafa drepið er móðir hans sem var 89 ára og þjáðist af þunglyndi þegar hún lést árið 2011. Læknar hennar segja að hún hafi ekki verið fylgjandi líknardrápi.

Reiknað er með að réttarhöldin standi yfir í tvær vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert