Mjótt á munum í forsetakosningunum

Kjósendur ganga til kosninga á föstudag og laugardag í síðari …
Kjósendur ganga til kosninga á föstudag og laugardag í síðari umferð tékknesku forsetakosninganna. Myndin er af nunnum að greiða atkvæði í fyrri umferð kosninganna. AFP

Mjótt er á munum milli frambjóðendanna tveggja sem sækjast eftir kjöri til forseta Tékklands en kosið verður á föstudaginn og laugardaginn. Núverandi Tékklandsforseti, Milos Zeman, hlaut 38,6 prósent atkvæða í fyrri umferð forsetakosninganna og stendur valið því milli hans og Jiri Drahos, fyrrverandi rektors Tækniháskóla Tékklands, sem fékk 26,6 prósent í fyrri umferðinni.

Í frétt AFP um málið kemur fram að Zeman sé þekktur fyrri umdeildar skoðanir, hann bæði styður Rússa og hefur talað opinskátt gegn múslimum. Zeman er 73 ára að aldri, fimm árum eldri en mótframbjóðandi hans sem er 68 ára. Þá greinir á í Evrópumálum en Drahos er Evrópusinni.

Samsett mynd. Milos Zeman Tékklandsforseti að ofan og Jiri Drahos …
Samsett mynd. Milos Zeman Tékklandsforseti að ofan og Jiri Drahos fyrir neðan. AFP

Á síðum tékkneska dagblaðsins DNES birtust í morgun niðurstöður úr skoðanakönnun þar sem naumt er á munum. 47 prósent svarenda sögðust ætla að kjósa Drahos en 43 prósent Zeman. Skýrendur telja Drahos sigurstranglegri en af þeim níu frambjóðendum sem tóku þátt í fyrri umferð kosninganna hafa nokkrir lýst yfir stuðningi við Drahos fyrir seinni umferðina. Drahos sækir einmitt stuðning sinn í þéttbýli, t.d. til Prag og annarra stærri borga, en Zeman nýtur stuðnings bænda og fólks í dreifbýli.

„Hvorugur frambjóðandinn er með yfir helming atkvæða,“ sagði í frétt DNES í morgun en í fréttinni var talað um að niðurstöðurnar yrðu mjög spennandi. Tíu prósent kjósenda eru enn óákveðin en frambjóðendurnir mætast í kappræðum annað kvöld og á fimmtudag, kvöldið fyrir fyrri dag kosninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert