Neitar Spánarstjórn um nýja handtökuskipun

Carles Puigdemont við komuna til Kaupmannahafnar.
Carles Puigdemont við komuna til Kaupmannahafnar. AFP

Dómari á Spáni neitaði í dag að gefa út nýja handtökubeiðni á hendur Carles Puigdemont, fyrr­ver­andi for­seta heima­stjórn­ar Katalón­íu. Puigdemont kom í dag til Kaupmannahafnar til að taka þátt í ráðstefnu, en hann hefur verið í útlegð í Brussel frá því í október. 

Sak­sókn­ari á Spáni lýsti því yfir í gær að farið yrði fram á það við dönsk yf­ir­völd að Puig­demont yrði fram­seld­ur kæmi hann til Dan­merk­ur, en Puigdemont er sagður ögra spænskum yfirvöldum með ferðalagi sínu þar sem þau höfðu áður hótað að gefa út hand­töku­skip­un á hend­ur hon­um yf­ir­gæfi hann Belg­íu.

Var það hæstaréttadómarinn Pablo Llarena sem synjaði spænskum yfirvöldum um handtökuskipunina, en nýlega lagði forseti Katalóníuþings til að Puigdemont yrði á ný valinn forseti heimastjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert