Saka stjórnarherinn um klórgasárás

Fólk á gangi í Douma, en mikill reykur og ryk …
Fólk á gangi í Douma, en mikill reykur og ryk er í lofti eftir loftárásir á svæðið undanfarið. Björgunarstarfsmenn saka Sýrlandsstjórn um að hafa notað klórgas í árásum sínum á svæðið í morgun. AFP

Björgunarstarfsmenn á svæði uppreisnarmanna í nágrenni Damaskus  saka Sýrlandsstjórn um að nota klórgas í árásum sínum á svæðið. Hefur Reuters eftir mannréttindasamtökunum Syrian Observatory for Human Rights að 13 manns hið minnsta hafi kafnað í árásunum.

Sýrlandsher og stjórnvöld í landinu hafa ítrekað neitað því að hafa notað klór eða önnur efnavopn í árásum sínum, en stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í sjö ár.

Björgunarmenn, sem tilheyra hópi sem kallar sig Hvítu hjálmana sem starfar á svæðum uppreisnarmanna, segja 13 almenna borgara, þar á meðal konur og börn, hafa „særst eftir að stjórn Assads notaði klórgas í Douma í austurhluta Ghouta“.

Ghouta er eitt úthverfa Damaskus, en þar hafa tæplega 400.000 manns búið við umsátursástand frá 2013, en austurhluti Ghouta er eitt síðasta stóra svæðið sem vígamenn Ríkis íslams hafa á valdi sínu.

Heilbrigðisyfirvöld á svæðinu segja sjúklinga hafa sýnt einkenni sem bentu til þess að þeir hefðu andað að sér klórgasi. Þá hefðu sjúklingar sagt lyktina í nágrenni árásarstaðarins hafa minnt á klór.

Samtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem staðsett eru í Bretlandi, hafa eftir heimamönnum og öðrum heimildamönnum að „gasefni“ hafi borist út eftir eldflaugaárás á Douma í dögun og að það hafi valdið köfnun. Þá hafi efnavopn einnig verið notuð í árás á svæðið í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert