Dvöldu 3 mánuði á flugvelli

Fjölskyldan, sem samanstendur af fjórum börnum undir 11 ára aldri …
Fjölskyldan, sem samanstendur af fjórum börnum undir 11 ára aldri og fjórum fullorðnum kom fyrst til Bangkok í maí á síðasta ári. Skjáskot/Twitter

Átta manna fjölskylda frá Simbabve yfirgaf loks í gær Suvarnabhumi flugvöllinn í Bangkok á Taílandi, þar sem þau hafa búið undanfarna þrjá mánuði.  

Fjölskyldan, sem samanstendur af fjórum börnum undir 11 ára aldri og fjórum fullorðnum kom fyrst til Bangkok í maí á síðasta ári. Þegar þau síðan ætluðu að halda til Spánar i október kom í ljós að þau voru ekki með réttu vegabréfsáritunina. Þeim var þá ekki heimilt að halda aftur út og dvelja í Taílandi áfram þar sem þau höfðu þegar dvalið lengur en ferðamannaáritun kveður á um og var gert að greiða sekt vegna þessa.

Fjölskyldan sagðist hins vegar ekki geta snúið aftur til Simbabve þar sem þau ættu ofsóknir yfir höfði sér að því er BBC greinir frá.


 

Aðstæður fjölskyldunnar vöktu hins vegar ekki athygli fyrr en í desember er einn flugvallarstarfsmannanna birti mynd af sér á samfélagsmiðlum með einu barnanna og sagði þau búa á flugvellinum „vegna ástandsins“ í heimalandinu.

Taílensk yfirvöld sögðust þá hafa reynt að aðstoða fjölskylduna til að komast til annars lands með úkraínska flugfélaginu UIA og að bókað hefði verið flug fyrir þau til Kíev í gegnum Dúbaí og þannig framhjá evrópskum innflytjendaeftirlitsstofnunum.

Fjölskyldan afpantaði hins vegar seinni hluta flugsins og var því send aftur frá Dúbaí til Bangkok. Þá óskaði fjölskyldan eftir aðstoð Sameinuðu þjóðanna þar sem þau kváðust óttast ofsóknir í Simbabve í kjölfar mótmælanna í landinu í nóvember, er Robert Mugabe var látinn segja af sér sem forseti. Talsmenn Sameinuðu þjóðanna sögðust á þeim tíma ætla að skoða málið og allan tímann dvaldi fjölskyldan á brottfararsvæði flugvallarins og naut aðstoðar flugvallarstarfsfólks.

Í gær fengu þau svo loks flug til Filippseyja, en þar í landi eru Sameinuðu þjóðirnar með flóttamannabúðir. Ekki er þó ljóst hvort að för þeirra hafi verið heitið þangað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert