Ekkert alvarlegt tjón í skjálftanum

Hér sést hvar skjálftinn átti upptök sín.
Hér sést hvar skjálftinn átti upptök sín. US Geological Survey

Ekki hafa borist neinar fréttir af meiðslum á fólki né miklum skemmdum á byggingum í jarðskjálftanum sem reið yfir suðurströnd Alaska klukkan 9:31 að íslenskum tíma, klukkan 00:31 að staðartíma. 

Flóðbylgjuviðvörun var gefin út strax eftir skjálftann en hann mældist 7,9 stig. Viðvörunin var gilti fyrir Alaska og Bresku-Kólumbíu en einnig var gefin út viðvörun, en vægari, fyrir Kaliforníu og Oregon auk hluta Washington-ríkis. Nokkru síðar var viðvöruninni breytt í ráðleggingu og klukkan 3:15 að staðartíma höfðu ekki borist neinar tilkynningar um stórar öldur eða skemmdir. 

Miðja skjálftans var 290 km suðaustur af Kodiak og voru upptök hans á 10 km dýpi. Líkt og fram hefur komið á mbl.is var í fyrstu talið að skjálftinn hefði verið 8,2 stig en síðar lækkaður í 7,9 stig.

Skjálftinn fannst víða og mjög vel í Anchorage þrátt fyrir að vera í mikilli fjarlægð frá upptökum skjálftans. Íbúar í Kodiak segja að sjávarhæðin hafi eitthvað aukist en ekki mikið. Margir íbúanna hafa yfirgefið heimili sín nálægt ströndinni og eru nokkur hundruð íbúar í fjöldahjálparmiðstöð sem opnuð var í menntaskóla bæjarins.

Uppfært 13:01

AFP-fréttastofan greindi frá því nú um hádegi að búið sé að aflétta flóðbylgjuviðvöruninni. Áður höfðu almannavarnir Alaska greint frá því að engar fréttir um skemmdir hafi enn borist. 

Anchorage Daily News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert