Ekkert kranavatn frá 12. apríl

Mikill vatnsskortur er í Höfðaborg og mega borgarbúar nú nota …
Mikill vatnsskortur er í Höfðaborg og mega borgarbúar nú nota 50 lítra á mann á dag. Það mun breytast fljótlega og þá fær fólk úthlutað 25 lítrum daglega. AFP

Íbúar Höfðaborgar eru nú að fást við mestu þurrka sem geisað hafa í heila öld og hefur þeim nú verið tilkynnt að frá og með 12. apríl sé líklegt að ekkert vatn verði hægt að fá úr krönunum á heimilum þeirra. Það er níu dögum fyrr en spáð hafði verið.

Ef ekki tekst að draga verulega úr vatnsnotkun þegar í stað mun fólk þurfa að bíða við um 200 vatnsgeyma borgarinnar daglega og fá þá 25 lítra af vatni sem hverjum og einum verður úthlutað.

Borgaryfirvöld hafa gripið til ýmissa ráða til að draga úr vatnsnotkun, m.a. hafa þau hótað því að lögsækja þá sem nota meira en 50 lítra af vatni á dag sem er hámarks leyfilega notkunin.

Þegar farið er í sturtu eru nýttir til þess um 15 lítrar á hverri mínútu. Sama vatnsmagn þarf til að sturta niður úr klósetti í hvert sinn, samkvæmt upplýsingum frá WaterWise, suðurafrískri forvarnastofnun.

Ian Neilson, borgarstjóri Höfðaborgar, segir að ef allir leggist á eitt megi enn fresta því að skrúfa alfarið fyrir kranavatnið á heimilum fólks. 

Í byrjun árs birtu borgaryfirvöld lista yfir þá sem mestu vatni sóa í Höfðaborg. Segjast þau ætla að sekta þá sem nota mest af vatni. 

Borgaryfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að bregðast ekki fyrr við hinum fyrirséða vatnsskorti og hvetja borgarbúa til að draga verulega úr vatnsnotkuninni.

Sérfræðingar vita ekki hvenær hinum fordæmalausa þurrkatíma mun ljúka.

Þurr botn lónsins við Theewaterskloof-stíflu um 108 kílómetra frá Höfðaborg.
Þurr botn lónsins við Theewaterskloof-stíflu um 108 kílómetra frá Höfðaborg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert