Legganganetin af markaði í Ástralíu

Læknar víða um heim hafa grætt net í leggöng kvenna …
Læknar víða um heim hafa grætt net í leggöng kvenna og er Johnson&Johnson stærsti framleiðandi þeirra. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lyfja- og lækningavörurisinn Johnson&Johnson hefur tekið net ætluð til ígræðslu í leggöng af markaði í Ástralíu. Fyrirtækið hafði ekki mætt kröfum ástralskra yfirvalda um að uppfæra notkunarleiðbeiningar fyrir netin, sem og lista yfir yfir hugsanlegar aukaverkanir, líkt og öllum framleiðendum slíkra neta var gert að gera. En í ljós hefur komið að netin geta valdið alvarlegum aukaverknunum.

Johnson&Johnson er langstærsti framleiðandi netanna í heiminum, en þau hafa verið notuð af læknum um allan heim, þar á meðal á Íslandi, til að lagfæra blöðru-, leg- og endaþarmssig kvenna. Sem og áreynsluþvagleka.

Net­in eru annað hvort grædd und­ir þvagrás­ina eða und­ir slím­húð í leggöng­um og eiga að koma í veg fyr­ir að líf­færi, eins og leg og þvag­blaðra, sígi niður og þrýsti sér upp að vegg leg­gangn­anna, sem get­ur valdið kon­um mikl­um óþæg­ind­um. Er þetta al­gengt vanda­mál hjá kon­um eft­ir barns­b­urð.

Talsmaður ástralska lyfjaeftirlitsins staðfesti í samtali við The Guardian að umræddrar vörur frá Johnson&Johnson hefðu verið teknar úr sölu og ekki lengur á lista yfir leyfilegan lækningabúnað í landinu. Ekki hefur þó verið gefið út hvort læknum sé leyfilegt að klára þann búnað sem nú þegar er til á spítölum og læknastofum. Þá má áfram nota net frá öðrum framleiðendum hafi þeir uppfyllt skilyrði yfirvalda

Í byrjun þessa árs var Nýja-Sjáland fyrst landa til að banna alfarið ígræðslu neta í leggöng kvenna eft­ir að efa­semd­ir hafa vaknað síðustu misseri um ör­yggi og ár­ang­ur slíkra aðgerða.

Ýmis vand­kvæði og auka­verk­an­ir hafa komið upp í tengsl­um við net­in og hefur fjöldi kvenna lýst óbæri­leg­um sárs­auka vegna þeirra. Sum­ar kvenn­anna geta jafn­vel ekki gengið vegna sárs­auka og ekki stundað kyn­líf. Þær segja lífs­gæði sín hafa skerst veru­lega. Hundruð Ástr­alskra kvenna standa nú í hóp­mál­sókn á hend­ur John­son & John­son, en þær telja sig hafa verið til­rauna­dýr fram­leiðand­ans. Sam­bæri­leg dóms­mál eru einnig í gangi fyr­ir dóm­stól­um í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um, þar sem um 100.000 mál hafa verið höfðuð vegna netanna.

Krist­ín Jóns­dótt­ir, yf­ir­lækn­ir á kvenna­deild Land­spít­al­ans, sagði í sam­tali við mbl.is í haust að net­in hefðu ekki verið prófuð nógu vel áður en þau voru sett á markað. Þá sagði hún net­in oft notuð í þeim til­fell­um þar sem aðrar aðferðir hentuðu bet­ur. Sjálf sagðist hún ekki nota net­in nema af illri nauðsyn þegar all­ar aðrar aðferðir hefðu verið reynd­ar.

Hún sagði net­in hafa verið sett á markað sem lausn fyr­ir reynslu­litla lækna til að fram­kvæma aðgerðir á þessu svæði. „Þetta er svæði sem erfitt er að gera aðgerðir á og maður þarf mikla þjálf­un. Það get­ur tekið lang­an tíma að þjálfa sig upp. Þetta er stórt vanda­mál. Það eru marg­ar kon­ur með blöðru- og leg­sig, þannig það eru kannski marg­ir að gera aðgerðir án þess að hafa nógu mikla reynslu. Netið var sett á markaðinn sem lausn­in, en sýndi sig svo að það voru ýmis vand­kvæði, af því það var ekki búið að rann­saka það nógu mikið.“

Net frá John­son & John­son voru notuð hér á landi um ára­bil en þau eru ekki notuð leng­ur. Kristínu þóttu þau þó ekki verri en hin, sem notuð eru nú „Miðað við hvernig við notuðum þau þá voru ekki meiri vand­ræði í kring­um þau held­ur en önn­ur net. Vanda­málið er að þessi net hafa verið notuð of mikið og í þeim til­vik­um þar sem á ekki að nota þau.“

Krist­ín seg­ir að ákveðið hafi verið að skipta um net fyr­ir nokkr­um árum því nýju net­in henti aðgerðar­tækn­inni hér á landi bet­ur en net­in frá John­son & John­son. Þá hafi umræðan sem skap­ast hafði um net­in líka haft sín áhrif. Hún seg­ir net­in sjálf hins veg­ar vera sams­kon­ar. Það séu aðeins fest­ing­arn­ar sem eru frá­brugðnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert