Fastir í kláfi klukkustundum saman

Kláfurinn flytur ferðamenn upp á topp næsthæsta fjalls eyjunnar.
Kláfurinn flytur ferðamenn upp á topp næsthæsta fjalls eyjunnar. Skjáskot/Youtube

Hundruð ferðamanna urðu strandaglópar klukkustundum saman eftir að kláfur bilaði á eyjunni Langkawi í Malasíu. Voru sumir fastir inni í vagni kláfsins og þurftu að hanga ofan skógivaxinna fjalla þar til myrkur skall á. 

Yfir þúsund ferðamenn, m.a. frá Vesturlöndum og Kína, sem og fjöldi starfsmanna fyrirtækisins, komust hvorki lönd né strönd er bilunin varð. Um mjög vinsæla dægradvöl ferðamanna á eyjunni er að ræða. 

Um níutíu manns voru inni í kláfnum sjálfum er bilunin varð en kláfurinn flytur ferðamenn  upp á næsthæsta fjall eyjunnar þaðan sem stórkostlegt útsýni er til allra átta. Flest fólkið var á tindi fjallsins Machinchang er bilunin varð eða á stöð sem er í miðri fjallshlíðinni.

„Versta lífsreynsla allra tíma,“ skrifaði Pricilla á Twitter og birti mynd af kláfnum föstum yfir skóginum. 

Þrjár klukkustundir tók að gera við og koma fólkinu niður að fjallsrótunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert