Þumalþjófi verði gerð þung refsing

Terracotta-hermennirnir eru yfir 2.000 ára gamlir og á meðal helstu …
Terracotta-hermennirnir eru yfir 2.000 ára gamlir og á meðal helstu fornminja Kínverja. AFP

Kínversk yfirvöld krefjast þess að bandarískum manni verði gerð þung refsing fyrir að stela þumli af styttu af Terracotta-stríðsmanni, sem hefur verið til sýnis í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í kínverskum ríkisfjölmiðlum í dag.

Styttan er 2.000 ára gömul og verðmetin á 4,5 milljónir dollara, eða rúmar 450 milljónir íslenskra króna. Hún er í eigu kínverska ríkisins, en tíu styttur hafa verið á láni hjá Franklin-stofnuninni í Fíladelfíu, þar sem gestir hafa getað borið þessa merkilegu forngripi augum. Alls eru Terracotta-stytturnar um 8.000 talsins, en þær fundust árið 1974.

Samkvæmt frétt BBC um málið mun maðurinn, Michael Rohana, hafa verið í samkvæmi hjá Franklin-stofnuninni 21. desember er hann laumaðist inn í lokaðan sýningarsal, þar sem Terracotta-hermennirnir tíu voru til sýnis. Hann tók þar sjálfsmynd með einni styttanna, braut síðan þumalfingurinn af henni og tók með sér heim sem minjagrip.

Starfsfólk safnsins uppgötvaði að þumallinn væri horfinn 8. janúar síðastliðin. Bandaríska alríkislögreglan fór með rannsókn málsins og komst að því að Rohana, sem er 24 ára gamall, hefði framið verknaðinn.

Hann hefur játað og mun hafa geymt þumalinn í skrifborðsskúffu síðan fyrir jól.

„Við biðjum um að Bandaríkin refsi sökudólginum harðlega,“ segir Wu Haiyun, forstöðumaður ríkisstofnunarinnar sem lánaði Terracotta-hermennina til Fíladelfíu, við kínverska ríkisfjölmiðilinn CCTV. Hann sakar Franklin-stofnunina jafnframt um að fara kæruleysislega með þessa miklu dýrgripi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert