Stöðvuðu útsendingar kvennastöðvar

Palestínsk kona á gangi í Gaza. Taif TV sjónvarpsstöðinni var …
Palestínsk kona á gangi í Gaza. Taif TV sjónvarpsstöðinni var ætlað að varpa ljósi á palestínskar konur og þátt þeirra í uppbyggingu samfélagsins. AFP

Yfirvöld á Gaza hafa stöðvað nýja sjónvarpsstöð, sem er sérstaklega ætluð konum, að fara í loftið.

Segja ráðamenn í Hamas samtökunum, sem fara með stjórnina á svæðinu, að sjónvarpsstöðin Taif TV hafi ekki fengið nauðsynleg leyfi. Forsvarsmenn stöðvarinnar segjast hins vegar uppfylla öll lagaleg skilyrði.

Mannréttindasamtök hafa lengi vel gagnrýnt Hamas-samtökin fyrir að standa sig illa er kemur að réttundum kvenna á Gaza.

Palestínska Maan fréttastofan segir Hamas í gær hafa bannað útgáfupartí stöðvarinnar, eftir að útsendingar stöðvarinnar áttu að vera hafnar. Upplýsingamálaráðuneytið segir stöðina hins vegar ekki uppfylla öll lagaleg skilyrði, þrátt fyrir að hun hafi ítrekað verið beðin um að útvega þau.

„Forsvarsmenn stöðvarinnar voru beðnir um að lagfæra lagalega stöðu sína til að hefja útgáfu og voru látnir vita af öðru fjölmiðlafyrirtæki með sama nafn,“ hefur BBC eftir ráðuneytinu.

Forsvarsmenn stöðvarinnar fullyrða hins vegar að þetta sé ekki rétt og að stöðin tilheyri fjölmiðlafyrirtæki sem hafi fengið leyfi hjá bæði upplýsinga- og efnahagsráðuneytinu. Segja þeir Taif TV vera einu stöðina sinnar tegundar og að henni sé ætlað að varpa ljósi á þátt palestínskra kvenna í uppbyggingu samfélagsins á Gaza.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert