Líffæraþegar lifa í ótta vegna lyfjaskorts

Ættingjar fólks sem hefur fengið líffæraígræðslu hlekkja sig hér við …
Ættingjar fólks sem hefur fengið líffæraígræðslu hlekkja sig hér við barnaspítalann Dr. JM Rivers í Caracas til að mótmæla lyfjaskortinum. Um 3.500 líffæraþegar eru í Venesúela og lifðu þeir flestir tiltölulega eðlilegu lífi, þar til efnahagskreppan brast á. AFP

Yasmiru Castano fannst hún öðlast nýtt tækifæri í lífinu þegar hún fékk grætt í sig nýtt nýra fyrir tæpum 20 árum. Í kjölfarið gat hún lokið menntaskólanámi og fengið vinnu sem handsnyrtir.

Hún er nú orðin fertug, og í fyrra lenti hún í þeirri stöðu að lyfin sem hún tekur til að koma í veg fyrir að líkami hennar hafni ígræðslunýranu voru orðin ófáanleg í heimalandi hennar.

Reuters-fréttastofan segir sögu Castano ekki vera einsdæmi, enda grafi efnahagskreppan í Venesúela sífellt meira undan heilbrigðiskerfi landsins. 

Á aðfangadag var Castano flutt á ríkissjúkrahúsið í Caracas. Ónæmiskerfi hennar hafði ráðst gegn ígrædda líffærinu, sem hún missti svo skömmu síðar. Nú þarf hún að fara þrisvar í viku á sjúkrahús í blóðskiljun, en á  sjúkrahúsinu er bæði skortur á vatni og búnaði fyrir blóðskiljunina.

Sefur ekki af áhyggjum

„Ég sef ekki á nóttunni, heldur er ég bara með áhyggjur,“ segir Castano, þar sem hún liggur á nöturlegri sjúkrahússtofu. Hún vegur í dag ekki nema 35 kg.

Herbergisfélagi hennar á sjúkrahúsinu, hin 21 árs gamla Lismar Castellanos, er heldur ekkert að skafa utan af hlutunum. „Því miður þá getur verið að ég deyi,“ segir Castellanos, sem missti ígræðslunýra sitt á síðasta ári og á nú í erfiðleikum með að komast nógu oft í blóðskiljun til að halda líkamanum starfandi.

Larry Zambrano, 45 ára tveggja barna faðir, sem fékk nýra …
Larry Zambrano, 45 ára tveggja barna faðir, sem fékk nýra grætt í sig, hefur sl. ár tekið ónæmisbælandi lyf sem er ætlað dýrum. AFP

Um 3.500 líffæraþegar eru í Venesúela og lifðu þeir flestir tiltölulega eðlilegu lífi, þar til efnahagskreppan brast á og þetta áður stönduga ríki átti skyndilega orðið í erfiðleikum með að kaupa lyf á erlendum mörkuðum eða framleiða nægt magn til eigin nota.

Til þessa hafa um 31 líffæraþegi lent í þeirri stöðu að líkamar þeirra hafa hafnað ígræðslunni vegna skorts á réttu lyfjunum, samkvæmt upplýsingum frá Codevida, sjálfstætt starfandi heilbrigðissamtökum.

Sjö hafa enn fremur látist vegna fylgikvilla sem upp hafa komið þessu tengdir.

Helmingur blóðskiljunartækja óstarfhæfur

16.000 Venesúelabúar, sem sumir hverjir eru að bíða eftir líffæraígræðslu, þurfa þá að komast reglulega í blóðskiljun. Sá vandi blasir hins vegar við þeim að helmingur allra blóðskiljunartækja í landinu er nú óstarfhæfur að því er stjórnarandstöðuþingmaðurinn og krabbameinslæknirinn Jose Manuel Olivares fullyrðir.

Olivares hefur kynnt sér aðstæður í blóðskiljumiðstöðvum landsins og hefur verið duglegur að lýsa yfir áhyggjum sínum af vandanum.

Codevida, sem efnt hefur til mómæla vegna lyfjaskorts í landinu, segja sjö manns hafa látist á sl. þremur vikum af því að þeir komust ekki í blóðskiljun.

Sjúkdómar á borð við mislinga og barnaveiki, sem búið var að ná stjórn á, eru nú farnir að greinast á ný vegna skorts á bólusetningum og sýklalyfjum. Þá þurfa þeir Venesúelabúar sem greinst hafa með langvinnt krabbamein eða sykursýki oft að vera án lyfja eða nauðsynlegrar meðferðar.

Birgðirnar koma ekki

Hundruð þúsunda Venesúelabúa hafa líka flúið land sl. ár, m.a. fjöldi heilbrigðisstarfsfólks. Skortur á læknagögnum á borð við þvagleggi og sífellt hrörlegri innviðir sjúkrahúsanna gera þeim læknum sem enn starfa á spítölunum þá enn erfiðara um vik að sinna starfi sínu.

„Þetta er verulega stressandi. Við óskum eftir birgðum og þær koma ekki. Við höfum aftur samband og þær koma samt ekki. Það er þá sem við áttum okkur á að ástæðan er sú að þær eru ekki til,“ sagði nýrnasérfræðingur á einu ríkissjúkrahúsanna. Hann krafðist nafnleyndar þar sem heilbrigðisstarfsfólki er ekki heimilt að tjá sig opinberlega um ástandið.  

Sjúkratryggingar Venesúela, sem eiga að tryggja að sjúklingar fái nauðsynleg lyf, svöruðu ekki fyrirspurn Reuters um málið.

Notar lyf ætlað dýrum

Á meðan eykst ótti sjúklinganna sem steypa sjálfum sér í skuldir við að reyna að kaupa dýr lyf á svarta markaðinum. Aðrir biðja ættingja erlendis að reyna að smygla lyfjunum inn í landið eða leggja sig í hættu með því að minnka lyfjaskammta sína svo þeir endist lengur.

Larry Zambrano, 45 ára tveggja barna faðir, sem fékk nýra grætt í sig, hefur sl. ár tekið ónæmisbælandi lyf sem er ætlað dýrum.

Mótmæli gegn lyfjaskortinum í höfuðborginni Caracas.
Mótmæli gegn lyfjaskortinum í höfuðborginni Caracas. AFP

Guillermo Habanero og Emerson bróðir hans fóru báðir í nýrnaígræðslu vegna nýrnasjúkdóms. Emerson lést í nóvember eftir að hafa ekki fengið ónæmisbælandi lyf í mánuð.

„Ef maður missir nýra og þarf blóðskiljun, þá vantar öll efni. Þannig að maður fer bara beint í kirkjugarðinn,“ segir Habanero sem rekur lítið tölvuverkstæði í Catia, þar sem efnahagur margra er bágur.

Tilraunir Reuters til að fá svör frá heilbrigðisráðuneytinu hafa heldur ekki borið árangur þrátt fyrir ítarlegar tilraunir símeiðis, bréfleiðis og í gegnum samfélagsmiðla. Heimsókn fréttastofunnar í ráðuneytið skilaði heldur engum árangri.

Kennir Bandaríkjastjórn um stöðuna

Ríkisstjórn Nicolasar Maduros, forseta Venesúela, fullyrðir að kaupsýslumenn og Bandaríkjastjórn séu hinir raunverulegu sökudólgar og að þeir séu að reyna að skemma fyrir sósíalískri stjórn landsins með því að hamstra lyf og setja á viðskiptabann.

„Ég skil kaldhæðni hægri vængsins, áhyggjur þeirra sem ekki komast í blóðskiljun, en þetta er þeim að kenna. Þeir hafa beðið um viðskiptabönn gegn Venesúela,“ sagði Diosdado Cabello, einn þingmanna Sósíalistaflokksins, í nýlegu viðtali.

Þeir aðgerðarsinnar sem láta sig heilbrigðismálin varða kenna hins vegar vanhæfri og spilltri stjórn Maduros um það hvernig komið er.

Maduro hefur neitað að taka á móti lyfja- og matvælagjöfum þrátt fyrir versnandi efnahagsástand og það litla sem tekst að smygla af lyfjum inn í landið er fjarri því að vera nóg.

Þrátt fyrir þetta og vaxandi óvinsældir sínar er engu að síður búist við að Maduro hljóti endurkjör til næstu 6 ára þegar forsetakosningar fara fram í apríl á þessu ári þar sem búist er við að stjórnarandstaðan sniðgangi kosningarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert