Mislingatilfellum fjölgar um 400%

Mislingar. Rúmlega 20.000 mislingatilfelli greindust í Evrópu í fyrra. Mynd …
Mislingar. Rúmlega 20.000 mislingatilfelli greindust í Evrópu í fyrra. Mynd úr safni.

Mislingatilfellum í Evrópu fjölgaði um 400% milli áranna 2016 og 2017 og varar Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) við þróuninni. Rúmlega 20.000 mislingatilfelli greindust í álfunni í fyrra og leiddu mislingar til dauða í 35 tilfellum.

Óvenjufá tilfelli höfðu hins vegar greinst árið áður, eða 5.273.

Mislingafaraldur varð í 15 Evrópuríkjum í fyrra, en flest tilfelli greindust í Rúmeníu, Úkraínu og á Ítalíu.

Ein helsta ástæða vandans er að sögn sérfræðinga að fólk sleppir bólusetningu. Nokkurrar tortryggni gætir enn hjá sumum í garð bólusetningarinnar, þrátt fyrir að búið sé að afsanna fullyrðingar um tengsl milli einhverfu og MMR-bólusetningarinnar.

WHO segir hafa dregið úr bólusetningum við fjölda hefðbundinna sjúkdóma, auk þess sem bólusetning sé áfram lítil hjá sumum jaðarhópum.

„Hver sá einstaklingur sem greinist með mislinga í Evrópu minnir okkur á að óbólusett börn og fullorðnir eiga á hættu að fá sjúkdóminn og smita aðra sem ekki hafa verið bólusettir, burtséð frá búsetu,“ sagði dr. Zsuzsanna Jakab hjá WHO. Markmiðið verði að vera að losa kynslóðir barna fyrir fullt og allt við mislinga.

Þau ríki þar sem fjölmennustu mislingatifellin greindust í fyrra eru: Rúmenía með 5.562 tilfelli, Ítalía með 5.006 tilfelli, Úkraína með 4.767 tilfelli, Grikkland með 967 tilfelli og Þýskaland með 927 tilfelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert