Það næsta sem kemst helvíti á jörð

Særður maður liggur á bráðabirðgaheilsugæslustöð í Ghouta-héraði og bíður eftir …
Særður maður liggur á bráðabirðgaheilsugæslustöð í Ghouta-héraði og bíður eftir læknisaðstoð. Að minnsta kosti 1.400 hafa særst í árásum á aðeins þremur sólarhringum. AFP

Versti dagurinn. Versti mánuðurinn. Versta árið. Versta ástand allra tíma. Lýsingarorð í efsta stigi til að útskýra hörmungarnar í Sýrlandi eru á þrotum. Engin orð ná utan um þá skelfingu sem á sér stað og þá eyðileggingu sem við blasir í þessu fallega landi.

Á þessum orðum hefst fréttaskýring tveggja reyndra fréttamanna CNN á stöðunni á stríðinu í Sýrlandi sem nú á næstu dögum hefur staðið linnulaust í sjö ár. 

Suma daga eru fjölmiðlar uppfullir af fréttum um stríðið. Stundum líða dagar þar sem fáar fréttir berast. Skýringin felst m.a. í aðgengi fréttamanna að svæðinu. Og því að árásirnar koma í hrinum. Nú er í gangi enn ein árásarhrinan og skotmörkin eru íbúar í austurhluta Ghouta-héraðs skammt frá höfuðborginni Damaskus. Þar hafa um 400 þúsund manns verið innlyksa í herkví stjórnarhersins frá árinu 2013.

Rússnesk herþota svífur yfir bænum Arbin í Ghouta-héraði. Rússar hafa …
Rússnesk herþota svífur yfir bænum Arbin í Ghouta-héraði. Rússar hafa neitað því að hafa gert loftárásir sem fellt hafa óbreytta borgara á svæðinu. AFP

Í fyrradag féllu 100 almennir borgarar, þeirra á meðal mörg börn, í loftárásum Sýrlandshers. Í gær féllu að minnsta kosti fimmtíu, í þeim hópi voru einnig börn. Í dag hefur dánartalan svo enn haldið áfram að hækka og að minnsta kosti 24 hafa fallið í morgun. Samtals er talið að um 300 manns hafi týnt lífi í árásunum frá því á sunnudag, þar af um 70 börn. Um 1.400 hafa særst.

Austur-Ghouta hefur frá árinu 2012 verið undir yfirráðum uppreisnarmanna sem vilja koma forsetanum Bashar al-Assad frá völdum. Þeir segja hann spilltan og hafa haldið þjóð sinni niðri og níðst á henni. Assad hafði í mörg horn á líta fyrst eftir að stríðið braust út en nú hefur her hans beitt sjónum sínum að Ghouta. Til að hámarka skaðann eru samgöngumannvirki og byggingar þar sem matvæli gæti verið að finna helstu skotmörkin.

Uppreisnarmennirnir hafa svarað fyrir sig og gert eldflaugaárásir á úthverfi Damaskus. Í gær létust fimm í þeim árásum og tuttugu særðust. Stjórnarherinn sótti því fram að nýju og nú voru skotmörkin m.a. eldflaugaskotpallar og önnur hernaðarmannvirki. Markmiðið með þessu áhlaupi, sem staðið hefur frá því á sunnudag, er að knýja uppreisnarmenn til uppgjafar. 

Fjölmargar stofnanir, samtök, þjóðhöfðingjar og einstaklingar hafa hvatt stríðandi fylkingar til að leggja niður vopn, þó ekki væri nema tímabundið, svo koma megi nauðþurftum til almennra borgara. Engar vísbendingar eru um að slíkt verði að veruleika í bráð. 

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gaf út áhrifamikla yfirlýsingu í gær undir fyrirsögninni: Stríð gegn börnum í Sýrlandi: Fregnir berast um fjölda dauðsfalla barna í Austur-Ghouta og Damaskus.“ Svo fylgdi aðeins ein setning: „Engin orð munu réttlæta það að börn séu drepin, mæður þeirra, feður eða aðrir ástvinir.“

Maður krýpur við lík ástvinar síns sem féll í árásum …
Maður krýpur við lík ástvinar síns sem féll í árásum stjórnarhersins í bænum Arbin í austurhluta Ghouta-héraðs. AFP

Í neðanmálsgrein sagði að UNICEF hefði ákveðið að gefa út þessa stuttu yfirlýsingu þar sem „engin orð megna lengur að lýsa þjáningum barnanna og reiði okkar“.

Fyrir stríðið var Austur-Ghouta líkt við Edengarðinn. „Í dag er þetta það sem næst kemst helvíti á jörðu,“ skrifar Ben Wedeman, sérfræðingur í málefnum Sýrlands hjá CNN.

Viðmælendur hans í Austur-Ghouta eru sannfærðir um að árásir hersins síðustu daga séu aðeins „forleikurinn“ að því sem sé í uppsiglingu. Þeir telja að til standi að hefja gríðarlegt áhlaup gegn uppreisnarmönnunum með stuðningi Rússa. 

Læknir sem starfar innan héraðsins segir í samtali við CNN að ekki sé hægt að lýsa ástandinu öðruvísi en að þar hafi orðið hamfarir sem standi enn yfir. Hann telur að alþjóðasamfélagið hafi nú litið undan.

„Við höfum ekkert, engan mat, engin lyf, ekkert skjól,“ segir hann. „Við höfum ekki brauð. Við höfum ekkert.“ Það eina sem fólkið hafi séu stöðugar loftárásir. Að sögn læknisins eru þær jafnvel 10-20 á hverri mínútu.

Sýrlandsher segist vera að hreinsa svæðið af hryðjuverkamönnum en árásir þeirra hafa þegar fellt tugi almennra borgara. Þeir sprengja allt sem á vegi verður, að sögn læknisins; verslanir, markaði, sjúkrahús, skóla og moskur. „Ég veiti fólki meðferð en svo kemur það aftur daginn eftir og hefur þá særst að nýju.“

Tólf ára drengur fær læknisaðstoð eftir loftárás á heilsugæslustöð í …
Tólf ára drengur fær læknisaðstoð eftir loftárás á heilsugæslustöð í bænum Kafr Batna. AFP

Hann segir að nú virðist sem alþjóðasamfélagið líti undan. „Hvar er öryggisráðið? Þeir hafa yfirgefið okkur. Þeir hafa skilið okkur eftir til að deyja.“

Fréttaskýrandi BBC segir að svo virðist sem stríðið í Sýrlandi sé komið á nýtt og jafnvel enn hættulegra stig með hamförunum í Ghouta. „Alþjóðasamfélagið er getulaust í því að bregðast við, ekki síst vegna þess að leiðtogar þess eru innviklaðir í átökin, ekki síst Rússar.“

Hann segir aðra á svæðinu, s.s. Tyrki og Írani, fyrst og fremst vera að reyna að tryggja sína eigin hagsmuni. Þá virðist hlutverk Bandaríkjanna nokkuð óljóst en síðustu misseri hafa þeir beitt sér í stríðinu í þeim tilgangi að ráða niðurlögum Ríkis íslams. Það hefur nú að mestu tekist bæði í Sýrlandi og Írak. 

En eftir stendur stríð uppreisnarmanna og herja Assads.

„Alþjóðasamfélagið er ekki með sameiginlegt markmið, þar er engin stórkostleg forysta til staðar og engin sameiginleg stefna um það hvernig Sýrland framtíðarinnar ætti að vera,“ skrifar Jonathan Marcus, fréttaskýrandi BBC.

Barn horfir á lík jafnaldra sinna í bænum Arbin. Um …
Barn horfir á lík jafnaldra sinna í bænum Arbin. Um 70 börn hafa fallið í árásum síðustu þrjá sólahringa. AFP

Talsmenn hjálparsamtaka í Sýrlandi segja að árásir hafi verið gerðar á tíu bæi og þorp í austurhluta Ghouta í gær. „Fólkið getur ekkert farið,“ segir læknir hjálparsamtaka við BBC. Hann segir að á mánudag og þriðjudag hafi að minnsta kosti sex sjúkrahús orðið fyrir árásum.

Neyðin er því mikil og vex hratt með hverri árás. Sýrlandsstjórn heimilaði eina sendingu neyðargagna til svæðisins í lok nóvember en svo ekki söguna meir. Matarskorturinn er tilfinnanlegur og verð á matvælum hefur hækkað upp úr öllu valdi. Þannig kostar brauðhleifur nú 22 sinnum meira en að meðaltali í landinu. Um fimmtungur barna á svæðinu undir fimm ára aldri er alvarlega vannærður.

Hjálparstofnanir og samtök segja nú vonlaust að koma neyðaraðstoð inn á svæðið sem er í herkví. Mikið vonleysi virðist ríkja þeirra á meðal.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segist verulega brugðið vegna ástandsins og áhrifa þess á almenna borgara. 

Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Heather Nauert, gagnrýnir það svelti sem stjórn Assads beitir sem þvingunum í átökunum. „Ofbeldinu verður að linna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert