Sprenging í bandaríska sendiráðinu í Svartfjallalandi

Lögregla hefur girt af svæðið í kringum bandaríska sendiráðið í …
Lögregla hefur girt af svæðið í kringum bandaríska sendiráðið í Podgorica og rannsakar nú vettvang, m.a. hvort fleiri en einn hafi staðið að árásinni. AFP

Sprenging varð í bandaríska sendiráðinu í Svartfjallalandi í nótt. BBC segir óþekktan árásarmann hafa kastað sprengju inn á svæði sendiráðsins í höfuðborginni Podgorica.

Í Twitter-skilaboðum frá stjórnvöldum í Svartfjallalandi segir að árásarmaðurinn hafi að því loknu tekið eigið líf. Líklegt er talið að um handsprengju hafi verið að ræða. Ekki hafa borist fréttir af neinum meiðslum enn sem komið er, en bandaríska sendiráðið hefur hvatt fólk til að halda sig fjarri svæðinu.

Árásin átti sér stað um miðnætti  að staðartíma.

Lögreglan í Svartfjallalandi rannsakar nú málið og hverjir kunni að standa að baki tilræðinu. New York Times hefur eftir Steve Goldstein, hjá fjölmiðlasviði bandaríska innanríkisráðuneytisins, að ástæður árásarinnar séu óþekktar.

Öryggisvörður á vakt í nágrenni sendiráðsins sagði AFP-fréttastofunni að hann hafi heyrt tvær sprengingar, eina á eftir annarri, og eftir það hafi lögregla fljótt verið komin á staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert