Varaforsætisráðherra Ástralíu segir af sér

Barnaby Joyce, varaforsætisráðherra Ástralíu, (t.h.) horfir hér til forsætisráðherrans Malcolm …
Barnaby Joyce, varaforsætisráðherra Ástralíu, (t.h.) horfir hér til forsætisráðherrans Malcolm Turnbull. Joyce sagði í dag af sér embætti í kjölfar hneykslismáls. AFP

Barnaby Joyce, varaforsætisráðherra Ástralíu, hefur tilkynnt að hann segi af sér embætti vegna hneykslismáls sem hefur verið mikið fjallað um í áströlskum fjölmiðlum undanfarnar vikur. Upp komst fyrir nokkru að Joyce hélt við aðstoðar­konu sína og varð hún ólétt. 

Greindi Joyce í dag frá því að hann muni segja af sér sem formaður Þjóðarflokksins, sem er annar stjórnarflokkanna. Áður hafði Joyce hafnað því með öllu að segja af sér vegna málsins, sem m.a. varð til þess að Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, lagði til að kyn­líf milli ráðherra og starfs­manna þeirra yrði bannað.  

Sagði Joyce ákvörðun sína vera „straumrofa“ í málinu fyrir fjölskyldu sína og sinn nýja maka.

„Óhljóminum í þessu máli verður að ljúka,“ hefur BBC eftir Joyce á fundi með fréttamönnum.

Turnbull sendi frá sér yfirlýsingu skömmu síðar þar sem hann þakkaði Joyce störf sín og fyrir að vera dyggur baráttumaður sveita og dreifibýlis Ástralíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert