„Gífurlegar áhyggjur“ af opnun sendiráðs

Diplomat-hótelið fyrrverandi í Jerúsalem. Hugsanlegt er að sendiráð Bandaríkjanna verði …
Diplomat-hótelið fyrrverandi í Jerúsalem. Hugsanlegt er að sendiráð Bandaríkjanna verði þar til húsa. AFP

Tyrkir segjast hafa gífurlegar áhyggjur af opnun sendiráðs Bandaríkjanna í Jerúsalem í maí þegar 70 ár verða liðin frá stofnun Ísraels.

Stjórnvöld í Washington greindu frá dagsetningunni í gær í framhaldi af viðurkenningu Donalds Trump Bandaríkjaforseta á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels í desember síðastliðnum.

Utanríkisráðuneyti Tyrklands segir í yfirlýsingu sinni að ákvörðun Bandaríkjanna sýni „þráfylgni við að […] skaða friðargrundvöllinn“ og að hún valdi „gífurlegum áhyggjum“.

Hrein og klár ögrun

Palestínumenn hafa mótmælt því að Jersúsalem verði höfuðborg Ísraels, auk þess sem þeir eru mótfallir dagsetningunni sem Bandaríkjamenn kusu til að opna sendiráðið og segja um hreina og klára ögrun að ræða. Palestínumenn kalla 14. maí, þegar Ísraelar lýstu yfir sjálfstæði árið 1948, „hamfaradaginn“.

Sendiráðið verður til að byrja með staðsett í ræðismannsbyggingu Bandaríkjanna í hverfinu Arnona en síðar meir verður það flutt á annan stað. Ein möguleg staðsetning er Diplomat-hótelið fyrrverandi í Jerúsalem.   

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert