Assad virðir vopnahlé að vettugi

Íbúar Douma, stærstu borgarinnar á svæðinu, vöknuðu í morgun við …
Íbúar Douma, stærstu borgarinnar á svæðinu, vöknuðu í morgun við sprengjur og stórskotalið þrátt fyrir ákvörðun öryggisráðsins frá því í gær. AFP

Stjórnarher Sýrlands heldur áfram árásum sínum á austurhluta Ghouta-héraðs þrátt fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi í gær samþykkt tafarlaust 30 daga vopnahlé á svæðinu. Grimmilegar árásir hersins hafa nú staðið yfir samfellt í 8 daga og yfir 500 manns hafa látið lífið.

Íbúar Douma, stærstu borgarinnar á svæðinu, vöknuðu í morgun við sprengjur og stórskotalið þrátt fyrir ákvörðun öryggisráðsins frá því í gær. Ályktun um tafarlaust vopnahlé var loks samþykkt í gær gagngert svo hægt væri að veita fórnarlömbum læknisaðstoð og koma mannúðaraðstoð til fólksins á svæðinu.

Talsmenn uppreisnarmanna, sem eru við stjórn á svæðinu, fögnuðu ákvörðun öryggisráðsins og segjast munu virða vopnahléið.

Emmannuel Macron Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ræddu í dag við Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem er einn helsti bandamaður Bashars al-Assad Sýrlandsforseta, þar sem þau þrýstu á að vopnahléinu verði framfylgt „á næstu dögum“.

Sprengjuárásir stjórnarhersins á Ghouta síðustu viku teljast með harkalegustu árásum frá því að borgarstyrjöld braust út landinu fyrir tæpum sjö árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert