Meint sprengja reyndist þýfi

Kort/Google

Uppi varð fótur og fit á flugvellinum á Vigra sem þjónar Ålesund og nágrenni í norska fylkinu Mæri og Raumsdal þegar pakki, vafinn límbandi, fannst í reiðuleysi utan við flugstöðvarbygginguna um hádegisbilið í gær.

Í samræmi við verklagsreglur flugvallarins var flugstöðvarbyggingin rýmd klukkan 13:30 að staðartíma, 12:30 að íslenskum tíma, lögregla kölluð til og öryggissvæði með 200 metra radíus afmarkað umhverfis pakkann. Hluta flugumferðar um völlinn var frestað um óákveðinn tíma, þó ekki flugvélinni sem flutti sprengjusveit lögreglunnar í Ósló á staðinn og lenti hún á Vigra um kvöldmatarleytið í gær.

Eftir að sprengjusveitin hafði nálgast pakkann með ýtrustu varúð og opnað hann kom í ljós að ekki var um sprengju að ræða. Að sögn lögreglu leit hins vegar út fyrir að pakkinn væri á vegum einhvers eða einhverra sem óhreint mjöl hefðu í pokahorninu en innihaldið leit við fyrstu sýn út fyrir að vera þýfi.

„Hérna gæti verið um þýfi að ræða og viðkomandi hafi séð sitt óvænna þegar að því kom að fara með pakkann gegnum öryggiseftirlit og guggnað á öllu saman,“ sagði Arne Lid Skodje, sem stjórnaði aðgerðum lögreglunnar á vettvangi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Segir SAS gleyma farþegunum

Eins og gefur að skilja komu aðgerðirnar í gær við ferðaáætlanir einhverra og tóku flugfarþegar og aðstandendur þeirra rýmingunni og tilheyrandi töfum misjafnlega.

„Ég ætla mér ekki að fara hérna út í skóg [til að létta á mér],“ sagði Synnøve Lode Knutsen flugfarþegi í samtali við NRK og kvartaði sáran yfir því að fólki væri gert að híma á flugvellinum án matar og salernisaðgengis. Hún sagði flugfélagið SAS einfaldlega hafa gleymt farþegum sínum og hún væri með lítil börn í föruneyti sínu. Framganga flugfélagsins væri óboðleg og nú ætlaði hún einfaldlega til Ålesund þar sem skárra væri að hanga.

Í sama streng tóku þeir Alf Tore, Johnny og Hans Viggo sem NRK ræddi einnig við og kvörtuðu þeir yfir því að hjá SAS yrði enginn fyrir svörum og farþegar fengju ekkert að vita.

Staðardagblaðið Sunnmørsposten fjallaði um lögregluaðgerðina á Vigra-flugvellinum í gær og birti lista yfir þær flugferðir sem voru í uppnámi vegna pakkans grunsamlega. Virtust þetta vera einu upplýsingarnar sem einhverjir viðskiptavinir flugfélaganna höfðu aðgang að og hlaut dagblaðið lof fyrir í athugasemdum við fréttina, svo sem þeirri sem Yngvil Margrete Bortne skrifaði en hún átti von á barni sínu ungu heim úr vetrarfríi í gær:

„Þakka ykkur hjá Sumpen [Sunnmørsposten] fyrir að við fáum lágmarksupplýsingar um það sem er að gerast. SAS og Widerøe [annað flugfélag] eru í helgarfríi og hafa lokað símum sínum og ég á von á barni mínu einu heim úr fríi flugleiðis í kvöld. Það sem angrar mig mest er að þeir [flugfélögin] geti ekki haft opið fyrir símana þegar sérstakar aðstæður koma upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert